Viðskipti innlent

Hefja flug milli Akureyrar og Keflavíkur

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Beint innanlandsflug Flugfélags Íslands milli Keflavíkur og Akureyrar hófst í morgun. Flogið verður allan ársins hring milli þessara áfangastaða. Í tilkynningu segir að það sé von Flugfélagsins að þetta auðveldi íbúum á Norðurlandi að nýta sér enn frekar millilandaflug til og frá Íslandi og auðveldi að sama skapi erlendum ferðamönnum að komast beint til Norðurlands.

„Við kynntum þessa hugmynd síðasta haust og viðbrögðin viðskiptavina okkar og hvatning Norðlendinga sýndu svo sannarlega að áhuginn er mikill á henni. Þetta auðveldar að sjálfsögðu dreifingu ferðamanna sem koma til landsins og að sama skapi auðveldar allt ferðalag fyrir þá sem eru að koma úr eða fara í millilandaflug,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands.

Flogið verður allt að sex sinnum í viku yfir vetrartímann og að lágmarki tvisvar í viku yfir sumartímann. Fyrst um sinn verður þessi þjónusta í boði fyrir þá sem eru á leið í eða úr millilandaflugi í Keflavík og geta því ferðast alla leið frá Akureyri til endanlegs áfangastaðar í Evrópu eða Norður Ameríku og heim aftur.

„Það var ánægjulegt að fara í þetta fyrsta flug í nótt og ég er þess fullviss að þessi flugleið á eftir að reynast vel og koma þeim fjölda farþega sem ferðast þarna á milli til góða á komandi árum,“ segir Árni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×