Viðskipti innlent

Tulipop leikföng í hundrað bandarískar verslanir

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Fyrir sjö árum byrjuðu tvær íslenskar konur að skapa Tulipop ævintýraheiminn og hafa um sjötíu vörur verið framleiddar undir merkinu. Borðbúnaður, lampar, töskur og annar nytjavarningur. En nú er Tulipop komið í útrás og leikfangalína hefur litið dagsins ljós.

„Þetta er lína sem er framleidd af bandarísku leikfangafyrirtæki sem heitir Toynami sem selur mikið í Bandaríkjunum og víða um hei," segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri og annar stofnanda Tulipop.

Afrakstur samstarfsins eru bangsar, plastfígúrur og sparibaukur og verður leikföngunum dreift í hundrað verslanir í Bandaríkjunum til að byrja með. Annar stofnandi og yfirhönnuður Tulipop, Signý Kolbeinsdóttir, mun flytja til New York á morgun og fylgja verkefninu eftir á nýrri skrifstofu Tulipop.

„Þessi leikfangasamningur er stórt skref í þá átt að leyfa fólki að kynnast persónunum betur. Það er ekki hægt að sofa með lampa í fanginu upp í rúmi en það er hægt að sofa með bangsana," segir Helga en mikill áhugi hefur verið á persónum Tulipop. Og næst á dagskrá er að þær fái bæði rödd og látbragð.

„Við höfum mikið verið spurðar um teiknimyndir og sögur og hvar krakkar og fullorðnir geta kynnst heiminum og persónunum betur. Við erum einmitt um þessar mundir að vinna að því að koma teiknimyndaframleiðslu af stað og ekki langt í að það líti dagsins ljós.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×