Viðskipti innlent

Lauf og Oculis fá 70 milljóna styrk

Haraldur Guðmundsson skrifar
Starfsmenn Lauf Forks á góðri stundu.
Starfsmenn Lauf Forks á góðri stundu. Vísir/Ernir
Tækniþróunarsjóður hefur úthlutað 70 milljóna króna öndvegisstyrknum Sprett til sprotafyrirtækjanna Oculis og Lauf Forks. Félögin þurfa á móti að sýna fram á hlutafjáraukningu sem nemur jafnhárri upphæð og styrkurinn. 

Oculis efh. er nýsköpunarfyrirtæki sem vinnur að þróun nýrra augnlyfja og byggir á einkaleyfavarinni tækni félagsins. Droparnir hafa þá sérstöðu fram yfir venjulega augndropa að koma lyfjum til bakhluta augans og geta þannig komið í staðinn fyrir lyfjagjöf með sprautunál inn í augað. Fyrirtækið á rætur sínar að rekja til Háskóla Íslands og Landspítalans. Oculis lauk við fjármögnun á árinu 2016 sem leidd var af Brunni vaxtarsjóði og Silfurberg ehf. 

„Lauf Forks er hátæknifyrirtæki í hönnun, framleiðslu og sölu á reiðhjólaíhlutum. Fyrirtækið var stofnað fyrir tilstuðlan styrks frá Tækniþróunarsjóði árið 2011, í kringum hugmynd að nýrri gerð reiðhjólagaffals. Gaffallinn kom fyrst á markað seinni hluta árs 2014. Árið 2016 voru afhentir yfir tvö þúsund Lauf gafflar um allan heim. Með veglegum stuðningi Tækniþróunarsjóðs mun fyrirtækið á næstu misserum þróa nýjar vörur sem auka vöruframboð og tekjur Lauf til muna," segir í tilkynningu Tækniþróunarsjóðs. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×