Viðskipti innlent

Heiðrún Lind bendir á að laun sjómanna voru hærri en lækna

Haraldur Guðmundsson skrifar
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, forstjór SFS
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, forstjór SFS Vísir
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), skrifar aðsenda grein í Viðskiptablaðið í dag þar sem hún bendir á að meðaltekjur sjómanna hækkuðu úr 2,1 milljón á mánuði árið 2014 í 2,3 milljónir króna í fyrra. Hún segir að forstjórar fjármálafyrirtækja hljóti að fara fram á launahækkun ef sjómenn ná fram sínum ítrustu kröfum og sjómannaverkfallið leysist.

Vísar Heiðrún í grein sinni í tekjublað Frjálsrar verslunar sem kom út í byrjun júlí og segir hún að út frá þeim tölum sem þar er að finna megi álykta að verkfallsaðgerðir lækna hafi skilað þeim hástökkvarasætinu þegar kemur að launahækkunum starfsstétta milli 2014 og 2015. Bendir hún á að laun lækna hækkuðu þá að meðaltali um 23,5 prósent en laun sjómanna um 9,5 prósent. 

„Vafalaust er hættulegt að draga of víðtækar ályktanir af samantekt sem þessari. Hún kann þó að gefa hjálplegar vísbendingar. Þannig má ætla að verkfallsaðgerðir lækna hafi skilað þeim sem hástökkvurum listans. Meðallaun þeirra árið 2015 voru þó enn lægri en sjó­manna,“ segir Heiðrún Lind og heldur áfram:

„Þá vekur athygli að eina starfsstéttin sem hafði hærri laun en sjómenn árið 2014 samkvæmt úttekt Frjálsrar verslunar voru forstjórar fyrirtækja. Nú liggur fyrir að sjómenn eru í verkfalli. Nái þeir fram ítrustu kröfum um launahækkun liggur beinast við að forstjórar og starfsmenn fjármálafyrirtækja fari í verkfall. Það vill jú enginn verða skilinn eftir í launaskriði þeirra hæst launuðu.“


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.