Indiana Pacers vann öruggan sigur á Houston Rockets í NBA-deildinni í körfubolta í nótt, 120-101 en sigurinn var aldrei í hættu eftir að heimamenn voru þrettán stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 33-20.
Paul George, ofurstjarna Indiana-liðsins og þess langbesti maður, átti stórleik eins og svo oft áður en hann skoraði 33 stig, tók níu fráköst og gaf þrjár stoðsendingar.
Hann átti líka tilþrif leiksins þegar hann tróð með látum yfir svissneska miðherjann Clint Capela þegar sex mínútur voru eftir af þriðja leikhluta en hann kom þá sínum mönnum í 65-53.
George var með Trevor Ariza, bakvörð Houston, á móti sér en hann fíflaði Ariza upp úr skónum og negldi svo boltanum ofan í körfuna með hinn 22 ára gamla og 208 cm háa Capela í andlitinu á sér.
Capela þarna settur á svissneskt veggspjald og það með látum en troðsluna má sjá í spilaranum hér að ofan.
Paul George bjó til svissneskt veggspjald úr Clint Capela með tröllatroðslu
Tengdar fréttir

Enn ein þrenna Westbrook dugði ekki til sigurs
Golden State lagði Portland Trail Blazers þrátt fyrir að vera án Steph Curry.