76ers hefur verið eitt lélegasta lið NBA síðustu ár en virðist loks vera að rétta úr kútnum. Liðið þokast upp töfluna eftir slakan árangur í upphafi leiktíðar en liðið lagði Portland Trail Blazers 93-92 í nótt og hefur nú unnið þrjá leiki í röð.
Robert Covington skoraði 22 stig fyrir 76ers auk þess að skora sigurkörfuna. Ersan Ilyasova var stigahæstur með 24 stig en stjarna liðsins Joel Embiid fór meiddur af leikvelli í seinni hálfleik. Embiid skoraði engu að síður 18 stig, tók 10 fráköst, gaf 5 stoðsendingar og varði fjögur skot. Damian Lillard skoraði 30 stig fyrir Trail Blazers.
Golden State Warriors tryggði sér öruggan 125-108 sigur á Houston Rockets með frábærum þriðja leikhluta sem liðið vann 37-22 eftir að hafa verið fimm stigum yfir í hálfleik.
Kevin Durant skoraði 32 stig fyrir Warriors og Stephen Curry 24 en liðinu tókst að halda James Harden stjörnu Houston í skefjum. Harden skoraði 17 stig og gaf 11 stoðsendingar en hitti ekki úr neinu af 5 þriggja stiga skotum sínum.
Úrslit næturinnar:
Philadelphia 76ers – Portland Trail Blazers 93-92
Charlotte Hornets – Toronto Raptors 113-78
Orlando Magic – Milwaukee Bucks 112-96
Memphis Grizzlies – Sacramento Kings 107-91
New Orleans Pelicans – Brooklyn Nets 114-143
Houston Rockets – Golden State Warriors 108-125
Atlanta Hawks – Chicago Bulls 102-93
Dallas Mavericks – Utah Jazz 107-112
Los Angeles Lakers – Indiana Pacers 108-96