Viðskipti innlent

50 milljarðar í hagnað

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka.
Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka. Vísir
Hagnaður Arion banka eftir skatta á árinu 2015 nam tæpum 50 milljörðum króna.

„Afkoma ársins er afar góð en markast mjög af óreglulegum liðum. Árið 2015 markar ákveðin kaflaskil í starfsemi Arion banka því á árinu voru nokkur umfangsmikil úrlausnarverkefni leidd til lykta. Verkefni sem unnið hefur verið að innan bankans um nokkurra ára skeið,“ segir Höskuldur Ólafsson bankastjóri í tilkynningu.

Þar er fyrst og fremst um að ræða sölu bankans á hlutum í fimm félögum. Það er Reitum fasteignafélagi, Eik fasteignafélagi, Símanum, alþjóðlega drykkjaframleiðandanum Refresco Gerber og Bakkavor Group.

Hagnaður af reglulegri starfsemi bankans nam 16,8 milljörðum króna samanborið við 12,7 milljarða árið 2014. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi nam 10,4 prósentum á árinu samanborið við 10,7 prósent árið 2014. Heildareignir námu í árslok 2015 1.011,0 milljörðum króna samanborið við 933,7 milljarða króna í árslok 2014 og eigið fé hluthafa bankans nam 192,8 milljörðum króna í árslok og hafði hækkað um 20 prósent milli ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×