Hinn skrautlegi Craig Sager verður verðlaunaður fyrir sitt ævistarf í næstu viku.
Þá mun þessi geðþekki íþróttafréttamaður vera tekinn inn í heiðurshöll íþróttalýsara. Hátíðin verður haldin þriðjudaginn næstkomandi í New York.
Sager hefur verið að taka viðtöl á hliðarlínunni í NBA-deildinni í um 20 ár og nýtur mikillar virðingar þjálfara, leikmanna sem og áhorfenda.
Sager er orðinn 65 ára gamall og hefur verið að glíma við krabbamein síðustu árin. Hann hefur fengið mikinn stuðning frá NBA-deildinni sem hann segir að hafi gefið sér mikinn kraft.
Sager hóf ferilinn í íþróttafréttamennsku árið 1972 er hann lýsti leikjum Kansas-liðanna í NFL og MLB í útvarpi.
Hann var ráðinn til CNN árið 1981 og hann vann einnig fyrir Turner Sports. Hann hefur fjallað um íþróttamót um allan heim en hefur átt heimili í NBA-deildinni síðustu tvo áratugina.

