Jól

Jól í anda fagurkerans

Elín Albertsdóttir skrifar
Tveir jafn stórir gluggar eru í stofunni. Þar hefur Agla Marta komið fyrir svörtum grindum sem hún hengir rauðar jólakúlur í. Í öðrum glugganum eru Kähler-húsin sem hún keypti í Danmörku. Húsið með tveimur stórum gluggum að framan er hannað eftir Illums Bolig í Kaupmannahöfn og var gert á sérstöku afmælisári verslunarinnar, hátíðarútgáfa sem ekki er framleidd lengur. Jólatrén eru gerð úr frauðplasti. 
MYND/EYÞÓR
Tveir jafn stórir gluggar eru í stofunni. Þar hefur Agla Marta komið fyrir svörtum grindum sem hún hengir rauðar jólakúlur í. Í öðrum glugganum eru Kähler-húsin sem hún keypti í Danmörku. Húsið með tveimur stórum gluggum að framan er hannað eftir Illums Bolig í Kaupmannahöfn og var gert á sérstöku afmælisári verslunarinnar, hátíðarútgáfa sem ekki er framleidd lengur. Jólatrén eru gerð úr frauðplasti. MYND/EYÞÓR
Agla Marta Marteinsdóttir arkitekt setur upp jólaskraut sem henni þykir vænt um og á sér einhverja sögu. Heimilið ber vott um fágaðan smekk fagurkera og jólaskreytingarnar eru í þeim anda. Danskir tréjólasveinar taka á móti gestum.

Agla Marta stundaði nám í kóngsins Kaupmannahöfn og dönsk hönnun hefur því haft áhrif á hana. Hún segir að saga fylgi hverjum hlut á heimilinu. Jólatréð er til dæmis alþakið gömlum, litlum leikföngum. „Börnin eru hugfangin af jólaleikföngunum og þau geta staðið lengi fyrir framan tréð og horft á dásemdina,“ segir hún. Á sófaborðinu er Agla Marta með ákaflega sérstakan og óvenjulegan aðventu­krans. Þetta eru pínulítil vírtré sem óendan­leg vinna liggur að baki. Trén eru gerð úr 0,2 mm vír en það er danski vírlistamaðurinn, P. Juhl, sem á heiðurinn af þessu meistaraverki. Agla Marta lætur trén vera á borðinu allt árið um kring en á aðventu setur hún rauð kerti með þeim og skapar þannig fallega jólastemningu.

Agla Marta hefur lengi verið eftirsóttur arkitekt.
Tengdafaðir Öglu Mörtu, Gunnar Ásgeirsson, var fyrstur til að flytja inn aðventukransa í glugga hér á landi. Agla Marta og eiginmaður hennar, Stefán Gunnarsson, eiga ljós úr fyrstu sendingunni sem setur svip á annan af tveimur alveg eins gluggum í stofunni. Í hinum glugganum er Agla Marta með postulínshús frá Kähl­er með kertaljósi sem setja mikinn svip á gluggann.

Þegar Agla Marta var við nám í Danmörku saknaði hún íslensku jólanna og skreytti eldhúsið gjarnan með piparkökum en þann sið heldur hún enn í. Hún er alltaf með jólaboð fyrir alla fjölskylduna á annan í jólum sem henni finnst ákaflega skemmtilegt en á aðfangadag fara þau hjónin í mat til sona sinna. „Ég var duglegri við veisluhald á aðventu og jólum á árum áður, veislunum hefur fækkað með árunum,“ útskýrir hún. Agla Marta skreytir bæði utan- og innanhúss og hvert smáatriði er úthugsað í anda arkitektsins enda er hún enn í fullri vinnu.

Þessi einstaki gíraffi er ekki jólaskraut en hann er svo ótrúlega fallegur og á sér sögu. Hann er 15 kíló og kom heim með Öglu Mörtu fyrir mörgum árum frá Naír­óbí í Kenýa. Hann ferðaðist óskemmdur um þrjá flugvelli á leiðinni heim en á Keflavíkurflugvelli var honum kastað á bandið þannig að nefið brotnaði. Flinkur lýtalæknir var fenginn til að gera aðgerð sem heppnaðist ljómandi vel. Gíraffinn er úr íbenholtsviði sem mikið er notaður í hljóðfæri.
Undir glæsilegum járnstiga eru uppblásin jólatré og gamall jólasveinn sem hefur fylgt Öglu Mörtu frá sjö ára aldri.
Aðventubakkinn með fallegu trjánum eftir vírlistamanninn P. Juhl sem sagt er frá í textanum.
Hinn glugginn er með aðventuljósi frá Gunnari Ásgeirssyni, eins og sagt er frá í textanum. MYNDir/EYÞÓR
Þessi fallegu jólatré eru smíðuð úr ryðguðu járni. Hreindýrin setja sérstakan svip á umhverfið og kertaljós er á minni dýrunum. Stóra listaverkið fyrir ofan er eftir listakonuna Steinunni Þórarinsdóttur. Á efstu hillu til hægri á myndinni er gömul brúða sem Agla Marta fékk að gjöf í Seattle. Kona sem rekur antíkbúð þar í borg gaf Öglu dúkkuna þegar hún sagðist vera frá Íslandi. Upphaflega fannst brúðan í rústum eftir jarðskjálfta í San Francisco árið 1906. Hún er með postulínshöfuð og í upprunalegum fötum.MYND/EYÞÓR

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.