Viðskipti innlent

„Kominn tími til að fyrir­tæki í verslunar­rekstri leggi sitt af mörkum við lækkun vöru­verðs á Ís­landi“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna.
Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna. vísir/gva
Í nýrri skýrslu Bændasamtakanna um matvælaverð á Íslandi sem kynnt var í dag kemur fram að svo virðist sem lækkun vörugjalda, skatta og tolla skili sér ekki í lægra verði til neytenda. Það sama á við um styrkingu krónunnar en samkvæmt skýrslunni hefur hækkun á gengi gjaldmiðilsins ekki skilað sér í lægra vöruverði.

Bændasamtökin vísa máli sínu til stuðnings meðal annars í skýrslu Samkeppniseftirlitsins um dagvörumarkaðinn sem kom út í mars í fyrra.

Í henni var meðal annars fjallað um styrkingu krónunnar á árunum 2011 til 2014 og þá staðreynd að það hefði ekki birst í smásöluverði. Þá hafi jafnframt komið fram vísbendingar „um að álagning birgja og dagvöruverslana á innfluttum vörum hafi hækkað. Hagstæð gengisþróun hefur því ekki skilað sér til neytenda,“ eins og segir í skýrslu Bændasamtakanna.

Nautakjöt hækkaði um 15 prósent á sama tíma og tollar lækkuðu

Þá er einnig vísað í skýrslunni í verðlagseftirlit ASÍ varðandi það hvort og þá hversu mikið vöruverð hafi lækkað þegar breytingar voru gerðar á vörugjöldum og virðisaukaskatti um áramótin 2014-2015.

Í skýrslu Bændasamtakanna segir að verðlagseftirlitið hafi komist að því að verð á raftækjum og byggingarvörum hafi „ekki lækkað í samræmi við lækkun gjaldanna og hið sama á við um afnám svokallaðs sykurskatts. Árið 2014 margfaldaðist innflutningur á nautakjöti til Íslands, magntollar lækkuðu um tvo þriðju og heimsmarkaðsverð lækkaði. Engu að síður hækkaði verð á nautahakki um 15% til neytenda á Íslandi.“

Að mati Bændasamtakanna þarf að tryggja samkeppni á dagvörumarkaði.vísir/ernir
Í tilkynningu frá Bændasamtökunum segir Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, formaður þeirra, að bændur hafi lagt sitt af mörkum til að halda aftur af verðlagshækkunum, meðal annars í kjölfar efnahagshrunsins, þegar þeir tóku á sig aukinn kostnað vegna mikillar lækkunar á gengi krónunnar. Nú sé hins vegar komið að versluninni.

„Það er kominn tími til að fyrirtæki í verslunarrekstri leggi sitt af mörkum við lækkun vöruverðs á Íslandi. Á undanförnum árum hafa átt sér stað breytingar, lækkun gjalda og styrking krónunnar, sem hefðu átt að skila í lægra verði til neytenda en hafa ekki gert það. Á sama tíma sjáum við fréttir af gríðarlegum hagnaði fyrirtækja á dagvörumarkaði. Þegar horft er til allra þeirra þátta sem geta haft áhrif á verðlag matvöru til neytenda á Íslandi er ljóst að hægt er að ná betri árangri við að ná niður verðlagi. Þar skiptir mestu að fyrirtæki á dagvörumarkaði leggi líka sitt af mörkum,“ segir Sigurgeir Sindri.

Tryggja þarf samkeppni á dagvörumarkaði

Að mati Bændasamtakanna er mögulegt að lækka matvöruverð hér á landi en eins og staðan er á markaðnum í dag „tekur verslunin of stóran hluta til sín á kostnað neytenda og bænda og úr því þarf að bæta,“ eins og segir í skýrslu samtakanna.

Það sem Bændasamtökin telja að þurfi að gera til að matvöruverð lækki hér á landi er meðal annars að tryggja samkeppni á dagvörumarkaði. Þarf Samkeppniseftirlitið að beita sér í auknum mæli fyrir því að mati Bændasamtakanna, en samkvæmt skýrslu eftirlitsins frá því í fyrra eru fjórar verslunarsamstæður með um 90 prósent hlutdeild á markaðnum, en þetta eru Hagar, Kaupás, Samkaup og 10-11/Iceland.

Þá þarf jafnframt að tryggja að ágóðinn af lækkun ýmissa gjalda skili sér til neytenda og að sama skapi tryggja að hagræðing í íslenskum landbúnaði skili sér ekki bara til fyrirtækja í verslunarrekstri heldur einnig til neytenda og bænda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×