Bakþankar
Frosti Logason.

Ljós heimsins

Frosti Logason skrifa

Ég verð að játa að ég er, og hef alltaf verið, mikið jólabarn. Mér finnst fátt gleðilegra en að fá frí frá daglegri vinnu og eyða meiri tíma með fjölskyldunni. Borða góðan mat með vinum og ættingjum. Auðvitað var ég líka spenntur fyrir öllum pökkunum þegar ég var yngri, þakklátur og glaður, en það eru aðrir hlutir sem skipta meira máli í dag. Nú reynum við að láta gott af okkur leiða, hugsa vel um þá sem minna mega sín og látum kærleikann skína í allar áttir. Jólin eru einstakur tími og hátíðarhöldin sem þeim fylgja hafa fylgt samfélagi okkar frá upphafi.

Því eins og allir vita hafa jólin frá fornu fari verið hátíð heiðinna manna og alltaf verið haldin við vetrarsólhvörf. Jólin eru nefnilega hátíð ljóssins þegar sólin fer að hækka á lofti og dag tekur að lengja. Þetta eru tímamót nýs upphafs, nýs árs og friðar. Öll tákn jólanna, svo sem jólatréð, jólasveinarnir, jólaljósin og jólagjafirnar eru upprunnin úr þessum góða heiðna sið og íslenskri þjóðtrú.

Kristnir menn, þeir sem trúa því að palestínskur gyðingur hafi risið upp úr dauðanum fyrir tæpum tvö þúsund árum, ákváðu eitt sinn að fæðingardegi hans yrði fagnað á þessum sama tíma. Þeir vissu nefnilega ekki alveg hvenær hann átti afmæli. Sólstöðuhátíðin, þegar dag tók að lengja, var gríðarlega vinsæl og því þótti tilvalið að gera hana að kristinni hátíð með því að minnast fæðingar hins afturgengna. En hann sagði eitt sinn um sjálfan sig af mikilli hógværð: „Ég er ljós heimsins.“ Sem heiðin þjóð bjóðum við hina kristnu ávallt velkomna í veisluna. Gleðileg jól!
 
Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.