Skoðun

Taka „Gylfann“ á þetta?

Guðríður Arnardóttir skrifar
Ég kann Gylfa Arnbjörnssyni, forseta Alþýðusambands Íslands, litlar þakkir fyrir að rífa niður kjarabaráttu kennara sem honum finnst greinilega komin á villigötur. Kennarar krefjast þess að fá laun til jafns við stéttir með sömu menntun og ábyrgð. Þeir láta sig þó ekki dreyma um launaleiðréttingar til jafns við almennan markað, þá bæri enn meira í milli deiluaðila.

Samfélag þar sem menntun er metin til launa og virðing borin fyrir þeim stéttum sem koma börnum okkar til manns, er það ekki samfélag sem við viljum byggja?

Kennarar hafa fengið sitt, segir Gylfi.

Þeir kennarar sem eru í kjarabaráttu þessa dagana, kenna í grunnskóla og tónlistarskóla. Meðallaun grunnskólakennara eru 491 þúsund á mánuði en eins og við vitum er meðalaldur kennara orðinn mjög hár vegna lítillar nýliðunar, svo yngri kennarar eru með mun lægri laun en meðaltalið segir til um.

Samkvæmt launaupplýsingum Hagstofu Íslands eru meðalheildarlaun sérfræðinga á almennum markaði 622 þúsund á mánuði. Meðallaun verkafólks á almennum markaði eru 475 þúsund á mánuði eða 16 þúsund krónum lægri en meðallaun grunnskólakennara með 5 ára háskólamenntun.

Gylfa finnst sem sagt eðlilegt, að þótt menn verði af ævitekjum í 5 ár og lifi á námslánum sem ævin endist tæplega til að borga, fái þeir 16 þúsund krónum hærri laun á mánuði en félagsmenn í ASÍ sem hafa ekki lokið háskólanámi. Það er talsvert lægra en afborgun af námslánum á ársgrundvelli.

Það er undarleg latína að í stað þess að Gylfi berjist fyrir hærri launum sinna félagsmanna, virðist hann berjast fyrir lægri launum annarra.  

Ef við hjá Kennarasambandi Íslands myndum taka „Gylfann á þetta“  þá værum við núna að berjast fyrir því að laun verkafólks í landinu lækkuðu.

En við ætlum ekki að gera það. Við viljum bara fá frið til þess að semja fyrir okkar fólk. Ég vona að viðsemjendur láti ósmekklegar upphrópanir Gylfa eins og vind um eyru þjóta og færi laun kennara í eðlilegt horf í samhengi við aðrar stéttir með sömu menntun og reynslu.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.