Viðskipti innlent

Ísfélag Vestmannaeyja hagnast um 1,3 milljarða

Sæunn Gísladóttir skrifar
Stærsti eigandi Ísfélagsins, ÍV fjárfestingarfélag, er að mestu í eigu Guðbjargar.
Stærsti eigandi Ísfélagsins, ÍV fjárfestingarfélag, er að mestu í eigu Guðbjargar. Vísir/Anton
Ísfélag Vestmannaeyja hagnaðist um 11,4 milljónir dollara, jafnvirði 1.300 milljóna íslenskra króna, á árinu 2015. Hagnaðurinn dróst saman um 13 milljónir dollara, 1.500 milljónir króna, milli ára.

EBITDA-framlegð var 27,6 prósent árið 2015, samanborið við 24,7 prósent árið áður. Í árslok námu eignir félagsins 288,9 milljónum dollara, jafnvirði 33 milljarða íslenskra króna, samanborið við 271 milljón dollara í árslok 2014. Bókfært eigið fé í árslok var tæplega 130 milljónir dollara, jafnvirði 14,9 milljarða króna og eiginfjárhlutfall félagsins 45 prósent.

Í árslok 2015 voru hluthafar í félaginu 135 en voru 137 í ársbyrjun. ÍV fjárfestingarfélag á um 89 prósent útistandandi hlutafjár og er eini hluthafi félagsins sem á yfir 10 prósent hlut. ÍV fjárfestingarfélag er nánast alfarið í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur í Vestmannaeyjum.

Rekstrartekjur móðurfélagsins námu samtals 115,6 milljónum dollara, 13,2 milljörðum íslenskra króna, árið 2015, samanborið við 105,9 milljónir dollara árið áður.

Helstu starfsþættir Ísfélagsins eru frysting sjávarafurða, fiskimjöls- og lýsisframleiðsla og útgerð fiskiskipa. Félagið á 50 prósenta hlut í Iceland Pelagic ehf.

Meðalfjöldi starfa hjá móðurfélaginu var 249 á árinu 2015, samanborið við 270 árið áður. Heildarlaun og þóknanir til stjórnenda samstæðunnar á árinu 2015 námu 1,3 milljónum dollara, tæplega 149 milljónum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×