Viðskipti innlent

Hlutabréf í Nintendo hafa lækkað um 30%

Sæunn Gísladóttir skrifar
Hundrað og þrjátíu milljónir manna hafa náð sér í Pokémon GO á rúmum mánuði.
Hundrað og þrjátíu milljónir manna hafa náð sér í Pokémon GO á rúmum mánuði. Mynd/NIANTIC
Frá því að gengi hlutabréfa í japanska leikjaframleiðandanum Nintendo náði hæstu hæðum þann 19. júlí síðastliðinn hafa hlutabréfin lækkað um rúmlega 30 prósent.

Gengi hlutabréfa í Nintendo rauk upp í kjölfar útgáfu snjallsíma­leiksins Pokémon GO úr smiðju fyrirtækisins þann 6. júlí síðastliðinn. Í dag hefur leikurinn slegið fimm heimsmet Guinness og hafa rúmlega 130 milljónir manna náð sér í leikinn. Velta leiksins á fyrsta mánuði nam 206,5 milljónum dollara og hefur snjallsímaleikur aldrei velt jafn hárri fjárhæð á fyrsta mánuði.

Eitthvað virðast fjárfestar þó óttast að Pokémon GO verði ekki jafn arðbær leikur og þeir áttu von á eftir að forsvarsmenn Nintendo gáfu í skyn að leikurinn myndi veita takmörkuð samlegðaráhrif.

Líkur eru á að gengi hlutabréfa muni þó hækka á ný í haust þar sem tveir snjallsímaleikir úr smiðju fyrirtækisins eru væntanlegir á komandi mánuðum. Leikirnir Fire Emblem og Animal Crossing eru byggðir á klassískum titlum og munu þá líklega draga að aðdáendur á borð við Pokémon GO hópinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×