Saman í sitthvoru lagi Þórlindur Kjartansson skrifar 29. júlí 2016 11:29 Fyrir skömmu sá ég á kaffihúsi hóp af konum á besta aldri. Þær höfðu hist til þess að fagna afmæli einnar þeirrar og voru í sólskinsskapi. Ein þeirra pantaði sér meira að segja hvítvín um miðjan dag en hinar horfðu öfundaraugum á glasið en leyfðu sér ekki sjálfar að fá sér, enda virtust þær allar vera á harðahlaupum að fara að sækja barnabörnin, fara í golf eða veiða pókemona—og gátu vitaskuld ekki látið áfengisvímu trufla sig. Þetta voru greinilega góðar vinkonur sem höfðu þekkst mjög lengi og báru öll samskiptin milli þeirra merki um hið afslappaða umburðarlyndi og skilning sem smám saman myndast í vinahópum; og er oftast áberandi á slíkum mannamótum þangað til einhver verður ofurölvi og vill fara að gera upp gömul mál. Eins og er algengt í svona hópum nútildags þá voru þær allar vopnaðar nýtískulegum snjallsímum og af tali þeirra mátti heyra að þær hefðu aðgang að flestum helstu samfélagsmiðlum—og meðal þess fyrsta á dagskránni var að skiptast á upplýsingum um hvað þær hétu á Snapchat. Um leið og síminn var kominn upp til þess að setja inn nýju Snapchat-vinina þá breyttist samkoman töluvert. Fyrst var tekin mynd af hvítvínsglasinu og viðburðurinn þar með skjalfestur. Þegar síminn var kominn í lófann kom í ljós að ýmsar áríðandi tilkynningar höfðu borist í símana og innan skamms hafði slegið þögn á hópinn og allar voru vinkonurnar niðursokknar í tækin sín, en rufu öðru hverju þögnina til þess að lesa upp úr fréttamiðlum einhver tíðindi eða snéru símunum að hópnum til þess að sýna krúttlegar myndir af barnabörnunum eða sér sjálfum.Að vera eða ekki vera, eða bæði í einu Á örfáum árum hafa snjallsímarnir gjörbreytt öllum samskiptum fólks. Flestir snjallsímaeigendur verða með einum eða öðrum hætti þrælar tækisins og handfjatla það ósjálfrátt í tíma og ótíma, og þegar þeir taka tækið upp þá er eins og eigendurnir sogist stjórnlaust inn í stafrænt svarthol sem engin leið er að sleppa út úr sjálfviljugur. Allir kannast við þá tilfinningu að telja sig vera að tala við einhverja manneskju, sem á sama tíma handfjatlar símann sinn. Svo lítur viðmælandinn í gaupnir sér og fer að hlæja—og maður kemst að því að á sama tíma og hann reyndi að halda þræði í samtali í raunheimum þá var hann í miklu áhugaverðara og skemmtilegra samtali við einhvern allt annan á snjallsímanum sínum. Fyrir örfáum árum hefði svona hegðun verið álitin samfélagslega óþolandi—enda vita allir að það er bannað að hvísla í afmælum. Nú er þetta mikið breytt. Tölur eru á reiki um hversu miklum tíma fólk eyðir í símunum sínum, en allir vísar hvað það varðar stefna beint upp á við. Það er jafnvel talið að fólk sé farið að eyða meiri tíma í símanum heldur en rúminu og ein nýleg rannsókn benti til þess að venjulegur snjallsímaeigandi taki tækið upp á sex mínútna fresti yfir daginn.Pössum upp á gamla fólkið Eins og venjulega þá hafa flestir áhyggjur af unga fólkinu; blessuðum börnunum—hvernig þau muni nú ná að höndla þessar nýjungar. Áhyggjufullir foreldrar lesa, læka og deila lærðum greinum um hvernig best er að halda tækjafíkn barna í skefjum, en hafa að sjálfsögðu minni áhyggjur af sjálfum sér. Ég held hins vegar að þetta sé argasti misskilningur. Börn og ungt fólk nú til dags elst upp við miklu meira áreiti heldur en fyrri kynslóðir. Þar af leiðandi læra þau betur að aðlaga líf sitt hinum stöðugu gagnafreistingum sem bylja á þeim. Heilinn verður miklu betri í að flokka niður áreiti og skilja á milli þess sem skiptir máli og þess sem er gagnslaust. Vandamálið er hjá eldri kynslóðunum sem ráða einfaldlega ekki við allt þetta áreiti.Maður er manns gaman Fyrir um tuttugu árum hringdi pabbi minn í farsíma vinar síns. Hann var þá staddur á myndlistarsafni í Berlín. Þetta kraftaverk tækninnar varð tilefni til mikillar umræðu og vangaveltna á heimili mínu, en engum datt í hug hvað kæmi næst. Þótt ótrúlegt megi virðast þá er ekki liðinn heill áratugur frá því iPhone kom fyrst á markað. Á þessum örfáu árum hafa öll samskipti milli manna gjörbreyst—og það er ekki skrýtið að mannskepnan, einkum eldri kynslóðir, eigi erfitt með að aðlaga sig þessari byltingu. Um verslunarmannahelgina leggja margir út í ferðalög. Markmið flestra er ekki bara að komast út í náttúruna heldur líka að hitta fólk úti í náttúrunni, og tala við fólk—jafnvel finna lyktina af fólki og koma við það. Enn hafa snjallsímarnir ekki gert raunveruleg samskipti óþörf—og vonandi munu sem flestir muna þann forna sannleik að maður er manns gaman; en eyða ekki allri helginni í að leita að svæðum þar sem 4G tengingin er bærileg. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þórlindur Kjartansson Mest lesið Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Heilbrigðiskerfið logar og er að hrynja: Þú áttir betra skilið Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Vitsmunaleg vanstilling í boði ungra Sjálfstæðiskvenna Erna Mist Skoðun Það sem má alls ekki tala um... Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Lenda menn í fangelsi eftir misheppnaða skólagöngu? Elinóra Inga Sigurðardóttir Skoðun Reiknileikni Sambandsins Ragnar Þór Pétursson Skoðun Litlu fyrirtækin – kerfishyggja og skattlagning Eiríkur S. Svavarsson Skoðun Við þurfum að tala um Bálstofuna Matthías Kormáksson Skoðun Krafa um árangur í atvinnu- og samgöngumálum Arna Lára Jónsdóttir Skoðun
Fyrir skömmu sá ég á kaffihúsi hóp af konum á besta aldri. Þær höfðu hist til þess að fagna afmæli einnar þeirrar og voru í sólskinsskapi. Ein þeirra pantaði sér meira að segja hvítvín um miðjan dag en hinar horfðu öfundaraugum á glasið en leyfðu sér ekki sjálfar að fá sér, enda virtust þær allar vera á harðahlaupum að fara að sækja barnabörnin, fara í golf eða veiða pókemona—og gátu vitaskuld ekki látið áfengisvímu trufla sig. Þetta voru greinilega góðar vinkonur sem höfðu þekkst mjög lengi og báru öll samskiptin milli þeirra merki um hið afslappaða umburðarlyndi og skilning sem smám saman myndast í vinahópum; og er oftast áberandi á slíkum mannamótum þangað til einhver verður ofurölvi og vill fara að gera upp gömul mál. Eins og er algengt í svona hópum nútildags þá voru þær allar vopnaðar nýtískulegum snjallsímum og af tali þeirra mátti heyra að þær hefðu aðgang að flestum helstu samfélagsmiðlum—og meðal þess fyrsta á dagskránni var að skiptast á upplýsingum um hvað þær hétu á Snapchat. Um leið og síminn var kominn upp til þess að setja inn nýju Snapchat-vinina þá breyttist samkoman töluvert. Fyrst var tekin mynd af hvítvínsglasinu og viðburðurinn þar með skjalfestur. Þegar síminn var kominn í lófann kom í ljós að ýmsar áríðandi tilkynningar höfðu borist í símana og innan skamms hafði slegið þögn á hópinn og allar voru vinkonurnar niðursokknar í tækin sín, en rufu öðru hverju þögnina til þess að lesa upp úr fréttamiðlum einhver tíðindi eða snéru símunum að hópnum til þess að sýna krúttlegar myndir af barnabörnunum eða sér sjálfum.Að vera eða ekki vera, eða bæði í einu Á örfáum árum hafa snjallsímarnir gjörbreytt öllum samskiptum fólks. Flestir snjallsímaeigendur verða með einum eða öðrum hætti þrælar tækisins og handfjatla það ósjálfrátt í tíma og ótíma, og þegar þeir taka tækið upp þá er eins og eigendurnir sogist stjórnlaust inn í stafrænt svarthol sem engin leið er að sleppa út úr sjálfviljugur. Allir kannast við þá tilfinningu að telja sig vera að tala við einhverja manneskju, sem á sama tíma handfjatlar símann sinn. Svo lítur viðmælandinn í gaupnir sér og fer að hlæja—og maður kemst að því að á sama tíma og hann reyndi að halda þræði í samtali í raunheimum þá var hann í miklu áhugaverðara og skemmtilegra samtali við einhvern allt annan á snjallsímanum sínum. Fyrir örfáum árum hefði svona hegðun verið álitin samfélagslega óþolandi—enda vita allir að það er bannað að hvísla í afmælum. Nú er þetta mikið breytt. Tölur eru á reiki um hversu miklum tíma fólk eyðir í símunum sínum, en allir vísar hvað það varðar stefna beint upp á við. Það er jafnvel talið að fólk sé farið að eyða meiri tíma í símanum heldur en rúminu og ein nýleg rannsókn benti til þess að venjulegur snjallsímaeigandi taki tækið upp á sex mínútna fresti yfir daginn.Pössum upp á gamla fólkið Eins og venjulega þá hafa flestir áhyggjur af unga fólkinu; blessuðum börnunum—hvernig þau muni nú ná að höndla þessar nýjungar. Áhyggjufullir foreldrar lesa, læka og deila lærðum greinum um hvernig best er að halda tækjafíkn barna í skefjum, en hafa að sjálfsögðu minni áhyggjur af sjálfum sér. Ég held hins vegar að þetta sé argasti misskilningur. Börn og ungt fólk nú til dags elst upp við miklu meira áreiti heldur en fyrri kynslóðir. Þar af leiðandi læra þau betur að aðlaga líf sitt hinum stöðugu gagnafreistingum sem bylja á þeim. Heilinn verður miklu betri í að flokka niður áreiti og skilja á milli þess sem skiptir máli og þess sem er gagnslaust. Vandamálið er hjá eldri kynslóðunum sem ráða einfaldlega ekki við allt þetta áreiti.Maður er manns gaman Fyrir um tuttugu árum hringdi pabbi minn í farsíma vinar síns. Hann var þá staddur á myndlistarsafni í Berlín. Þetta kraftaverk tækninnar varð tilefni til mikillar umræðu og vangaveltna á heimili mínu, en engum datt í hug hvað kæmi næst. Þótt ótrúlegt megi virðast þá er ekki liðinn heill áratugur frá því iPhone kom fyrst á markað. Á þessum örfáu árum hafa öll samskipti milli manna gjörbreyst—og það er ekki skrýtið að mannskepnan, einkum eldri kynslóðir, eigi erfitt með að aðlaga sig þessari byltingu. Um verslunarmannahelgina leggja margir út í ferðalög. Markmið flestra er ekki bara að komast út í náttúruna heldur líka að hitta fólk úti í náttúrunni, og tala við fólk—jafnvel finna lyktina af fólki og koma við það. Enn hafa snjallsímarnir ekki gert raunveruleg samskipti óþörf—og vonandi munu sem flestir muna þann forna sannleik að maður er manns gaman; en eyða ekki allri helginni í að leita að svæðum þar sem 4G tengingin er bærileg.