Fastir pennar

Ullaræði

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Með fjölgun ferðamanna hefur orðið mikill vöxtur í sölu á íslenskum varningi, sérstaklega ullarfatnaði. Í því sem mætti kalla ullaræði hefur orðið vart við fölsun og vörusvik; vörur sem ekki eru úr íslensku hráefni eða framleiddar hér á landi eru seldar sem slíkar.

Í aðsendri grein í Fréttablaðinu í gær segir Páll Kr. Pálsson, framkvæmdastjóri Varma sem hefur framleitt ullar- og skinnavörur á Akureyri í þrjátíu ár, að fyrirtækið þurfi að hætta starfsemi sinni fyrir norðan. Ástæðan sé sú að stjórnvöld leyfi að svindlað sé á neytendum með því að heimila innfluttar vörur án upprunamerkinga.

Kristjana Guðbrandsdóttir, blaðamaður Fréttablaðsins, skrifaði á dögunum úttekt um ullariðnaðinn. Þar tóku margir sem koma að þessum vettvangi undir sjónarmið Páls. Vörur eru fluttar inn og seldar með íslensku yfirbragði og erlendri ull er blandað við þá íslensku. Þuríður Einarsdóttir hjá Handprjónasambandinu sagði ábyrgð stjórnvalda ríka. „Það eru reglur um upprunavottorð um ýmsa vöru en það virðist ganga hægt þegar kemur að fatnaði.“

Um er að ræða mikilvægt neytendamál, sem og iðnaðarmál. Það er klárt að rétt eins og neytendur eru tilbúnir að borga meira fyrir rauðvín sem er framleitt á ákveðnum svæðum erlendis, íslenskt lambakjöt og vöru frá ákveðnum hönnuðum, bæði innlendum og erlendum, þá stendur íslensk ullarvara fyrir ákveðin gæði. Engum verður meint af því að kaupa ullarpeysu sem er framleidd úr íslenskri ull sem hefur verið þynnt út með erlendri ull, en það eru samt sem áður ekki þau gæði sem verið er að greiða fyrir.

Þeir sem framleiða sína vöru erlendis, en nota íslenskt hráefni og íslenska hönnun, eiga að vera stoltir af því og sýna neytendum sínum þá virðingu að merkja vörur sínar með réttum hætti. Í ullarúttektinni sagði Bjarney Harðardóttir, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar 66°Norður, að fyrirtækið vildi ekki fela að það framleiddi vörur sínar erlendis. „Við erum íslenskt vörumerki hvort sem vörur okkar eru framleiddar hér heima eða ytra.“

Í grein Páls kom fram að hann hefði reglulega vakið athygli stjórnsýslunnar á óréttlæti í merkingarmálum án þess að neitt hafi verið gert. Í svörum innanríkis- og iðnaðarráðuneyta í Fréttablaðinu í dag kemur fram að starfshópur hafi aðeins skilað af sér niðurstöðu sem tók til notkunar íslenska þjóðfánans við markaðssetningu á vöru og þjónustu. Iðnaðarráðherra segir tilefni til að skoða málin þegar þing kemur saman í haust.

Það er greinilega full ástæða til að taka þessi mál til ítarlegrar skoðunar. Það eru engar ástæður til að setja hér boð og bönn og loka landinu fyrir erlendri framleiðslu. Það er hins vegar sjálfsögð kurteisi að gera framleiðendum að merkja vörur sínar með réttum hætti og vernda þannig í leiðinni íslenskan iðnað og þau gæði sem hann stendur fyrir.






×