Viðskipti innlent

Markmiðið að einfalda afstemmingar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þeir Rúnar Dór og Ingi Rafn eiga Stemmarann ásamt Deloitte og Pálma Ólafi sem er hér fyrir miðju.
Þeir Rúnar Dór og Ingi Rafn eiga Stemmarann ásamt Deloitte og Pálma Ólafi sem er hér fyrir miðju. vísir/hanna
Ný vefsíða Stemmarans fór í loftið í gær en Stemmarinn er afstemmingarhugbúnaður sem hefur verið í þróun allt frá árinu 2013.

„Hugmyndin að verkefninu kviknaði árið 2013 og verkefnið hófst fyrir alvöru vorið 2014. Í febrúar 2015 kom svo fyrsta útgáfa af Stemmaranum út. Í kjölfarið hófst samstarf við Deloitte varðandi prófanir á forritinu með frekari þróun í huga,‟ segir Pálmi Ólafur Theódórsson, einn þeirra sem reka Stemmarann. Hann segir að vorið 2015 hafi önnur fyrirtæki svo smátt og smátt bæst í hóp þeirra notenda sem hjálpuðu til við þróun forritsins og formleg sala á hugbúnaðinum hafist i október sama ár.

Pálmi segir að hugmyndin hafi verið sú að smíða afstemmingarhugbúnað sem sparar tíma við bókhaldsvinnslu hjá fyrirtækjum og skilar um leið áreiðanlegri niðurstöðu. Markmiðið var að færa afstemmingarvinnuna inn í nútímann og nýta tæknina til þess að hafa ferlið sjálfvirkara.

„Í dag tíðkast að miklu leyti að stemma af í bókhaldi með því að strika út færslu á móti færslu á pappír. Slíkt er mjög tímafrekt auk þess sem töluverð villuhætta er fyrir hendi,‟ segir Pálmi.

Pálmi bendir á að í fjölmörgum fyrirtækjum sé töluverðum kröftum og tíma eytt í afstemmingar, en Stemmarinn einfaldi þá vinnu. „Við erum að sjá klukkustunda vinnu með gömlu aðferðinni klárast á nokkrum mínútum,‟ segir Pálmi. Hann segir tugi fyrirtækja og stofnana vera ýmist í fastri áskrift eða á reynslutíma. Deloitte, sem er á meðal eigenda Stemmarans, er jafnframt stærsti notandinn en meðal notenda eru fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir. Nýjasti stóri notandi forritsins er N1 en nýir notendur bætast við í hverri viku.

Auk Deloitte og Pálma Ólafs eru eigendur Stemmarans þeir Rúnar Dór Daníelsson endurskoðandi og Ingvi Rafn hugbúnaðarsérfræðingur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×