Viðskipti innlent

Taldi yfirlýsinguna vera ótímabæra

Ingvar Haraldsson skrifar
„Það er allavega augljóst að leiða Borgunarmálið til lykta,“ segir Helga Björk Eiríksdóttir, nýr formaður bankaráðs Landsbankans. Helga, er fyrsta konan sem gegnir starfinu. Hún segir að fylgja þurfi eftir hvort grundvöllur sé fyrir málsókn vegna sölu Landsbankans á tæplega þriðjungshlut í Borgun. Þá hafi Landsbankinn óskað eftir úttekt Ríkisendurskoðunar á viðskiptunum. Auk þess hafi verið farið yfir verkferla Landsbankans vegna málsins. Nýtt bankaráð þurfi hins vegar tíma til að kynna sér málið áður en tímabært sé að ræða það nánar.

Fimm af sjö bankaráðsmönnum Landsbankans gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi setu í ráðinu. Í yfirlýsingu sem þeir sendu frá sér þann 16. mars kom fram að fimmmenningarnir töldu Bankasýslu ríkisins, sem fer með 98 prósenta eignarhlut ríkisins í Landsbankanum, hafa gengið of langt í afskiptum sínum af rekstri bankans.

„Mér fannst ekki tímabært að vera með neinar yfirlýsingar á þeim tímapunkti því að við höfðum til að mynda ekki fengið niðurstöðu frá FME og það var nægur frestur til að svara Bankasýslunni,“ segir Helga um hvers vegna hún ákvað að taka ekki þátt í yfirlýsingu bankaráðsmannanna. Bankaráðinu var gefinn frestur til síðustu mánaðamóta til að grípa til aðgerða vegna Borgunarmálsins. Þá taldi Fjármálaeftirlitið sölu Landsbankans á hlut í Borgun ekki hafa verið í samræmi við lög. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. apríl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×