Konur eyða að meðaltali árlega 238 þúsund krónum í fatnað en karlar eyða 154 þúsund krónum. Á hverjum mánuði eyða konur tæplega 20 þúsund krónum í föt, en karlar eyða tæpum 13 þúsund krónum.

Hjá konum líða að meðaltali sautján dagar á milli kaupa, en hjá körlum líður rúmur mánuður eða 41 dagur.
Við greiningu talnanna ber þó að hafa í huga að mögulega eru konur að kaupa líka barnaföt, gjafir eða jafnvel föt á maka sinn. Þetta þýðir ekki endilega að þær séu að kaupa föt á sig.
Stærstu mánuðirnir í Meniga hagkerfinu fyrir fatnað og fylgihluti eru desember og janúar, bæði síðasta vetur og árið áður.
Vinsælasta fatabúð sem Íslendingar versluðu við á síðustu þremur mánuðum (janúar til mars 2016) var H&M. Af topp tíu vinsælustu fataverslununum átti H&M 17,7 prósenta markaðshlutdeild. Það er áhugavert í ljósi þess að H&M verslun er ekki að finna á Íslandi. Á hæla H&M kemur Lindex með 17 prósenta markaðshlutdeild og svo Zara með 12,7 prósent.
Herragarðurinn og Dressmann eru vinsælustu herrafataverslanirnar en Herragarðurinn átti 11,8 prósent af heildarmarkaðshlutdeild, Dressmann 6,4 prósent og Hugo Boss var með 4,9 prósenta hlutdeild.
Úrvinnsla Meniga byggir á tölfræðilegum samantektum sem aldrei eru persónugreinanlegar. Meniga greinir ekki eftir heimilum, heldur meðaltalsnotkun einstaklinga.