Viðskipti innlent

Fimm milljarðar króna í Plain Vanilla frá 2011

Sæunn Gísladóttir skrifar
Þorsteinn B. Friðriksson greindi frá stefnubreytingum hjá Plain Vanilla á fundinum.
Þorsteinn B. Friðriksson greindi frá stefnubreytingum hjá Plain Vanilla á fundinum. Mynd/Odd Stefán
Viðskipti Fjárfest hefur verið í Plain Vanilla fyrir rúmlega fjörutíu milljón dollara, um fimm milljarða króna, frá stofnun þess árið 2011. Fyrirtækið, sem framleiðir leikinn QuizUP, stefnir að því að skila hagnaði í fyrsta sinn í lok árs.

Þetta kom fram á ársfundi leikjaframleiðenda, IGI – Icelandic Game Industry, á þriðjudaginn.

Gríðarleg gróska er hjá leikjaframleiðendum á Íslandi. Í dag starfa átján leikjaframleiðslufyrirtæki á Íslandi, þar af tilheyra þrettán IGI.

Fram kom á fundinum að 95 prósent tekna leikjaframleiðenda koma erlendis frá. Uppsöfnuð velta tölvuleikjaiðnaðarins á Íslandi á árabilinu 2008 til 2015 er 67,8 milljarðar króna og hefur meðalvöxtur iðnaðarins verið átján prósent á ári.

Á mánudaginn lagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fram frumvarp til laga þar sem komið er til móts við margar af tillögum samtakanna. Með því vill IGI auka samkeppnishæfni íslensks leikjaiðnaðar.

Þorsteinn Baldur Friðriksson, forstjóri Plain Vanilla Games, greindi á fundinum frá stefnubreytingum hjá fyrirtækinu. Hann sagði að áður fyrr hefði verið mjög auðvelt að sækja fjármagn inn í fyrirtækið en nú geri fjárfestar þá kröfu að fyrirtækið leggi upp úr auknum tekjum og stefni að því að skila hagnaði.

„Það er orðin tíðarandabreyting í fjárfestingaumhverfinu í Kísildalnum, þar sem við fáum langstærsta magn af okkar fjármagni,“ sagði Þorsteinn.

Að sögn Þorsteins hafa tekjur farið langt fram úr áætlunum frá ársbyrjun. Auk þess séu enn að bætast við fjörutíu þúsund nýir notendur á dag. Nú sé yfir fjörutíu milljónir skráðir notendur.

Þróun hófst á QuizUp sjónvarpsþætti í samstarfi við NBC í fyrra og verður þátturinn sýndur í haust. „Það er búið að selja sýningarréttinn til ýmissa landa, meðal annars Bretlands, en hann verður frumsýndur í Bandaríkjunum,“ segir Þorsteinn Baldur Friðriksson, forstjóri Plain Vanilla Games.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 9. apríl.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.