Viðskipti innlent

Framkvæmdastjóri OECD beitir sér gegn útgöngu Breta úr ESB

Sæunn Gísladóttir skrifar
Gurria segir að allir hafi hagnast af aðild að sambandinu.
Gurria segir að allir hafi hagnast af aðild að sambandinu. Fréttablaðið/Ernir
Angel Gurria, framkvæmdastjóri Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, segir að Bretland ætti að vera áfram í Evrópusambandinu. Hann varar við því að óvissa um framtíð sambandsins hafi neikvæð áhrif á bæði hagkerfin í aðdraganda kosninga um veru Breta í ESB.

OECD mun beita sér markvisst fyrir því að Bretar verði áfram í Evrópusambandinu þar sem það sé Bretum fyrir bestu, sagði Gurria í viðtali við Bloomberg Surveillance. „Sambandið hefur gengið vel fram að þessu, allir hafa notið góðs af því, það er engin ástæða til að halda því fram að utan sambandsins muni Bretum ganga betur, þeim mun ekki gera það. Bretland er miklu sterkara sem hluti af Evrópu og Evrópa er mun sterkari vegna þess að Bretland er í henni, fjármálamarkaðir landsins og sterkt efnahagskerfi þess,“ sagði Gurria í viðtalinu.

Gurria varaði við því að ef af útgöngu yrði kæmi margt til með að breytast og mikil óvissa myndi ríkja.

Kosið verður um veru Breta í ESB þann 23. júní næstkomandi. David Cameron forsætisráðherra hefur beitt sér fyrir því að Bretar verði áfram í sambandinu, en Boris Johnson og ýmis fyrirtæki sjá hag sinn í að yfirgefa það. Í gær varaði Englandsbanki við því að pundið gæti komið til með að veikjast í aðdraganda kosninganna. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×