Viðskipti innlent

Gistirýmum á Airbnb fjölgaði um 126 prósent

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Flestar íbúðirnar sem eru í virkri útleigu á Airbnb eru miðsvæðis í borginni.
Flestar íbúðirnar sem eru í virkri útleigu á Airbnb eru miðsvæðis í borginni. Vísir/Vilhelm
Fjárfestingar í hótel-og gistirými hafa ekki fylgt eftir vextinum í fjölda ferðamanna og sérstaklega ekki á vinsælustu gistisvæðunum t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Af þessum ástæðum hefur skapast grundvöllur fyrir mikinn vöxt deilihagkerfisins undanfarið. Til að mynda hefur skráðum gistirýmum á Airbnb fjölgað verulega.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka um Íslenska ferðaþjónustu sem birt var í dag.

Sjá einnig: Svona lítur Airbnb Reykjavík út

Í skýrslunni segir að gert sé ráð fyrir að 1,6 milljónir ferðamanna komi til Íslands í ár, sem yrði þá 29 prósent aukning frá árinu 2015. Hins vegar er áætlað að 290 ný hótelherbergi komi á markaðinn 2016 sem nemur 5,8 prósent aukningu á framboði hótelherbergja.

Aukið framboð haldi því ekki í við aukna eftirspurn. Þetta leiði því til þess að nýting hótelherbergja mun að öllum líkindum verða hærri á árinu 2016 en á árinu 2015 og stærri hluti ferðamanna leita í aðra gistingu en hótelgistingu.

 

í lok nóvember á árinu 2015 var fjöldi skráðra gistirýma á Airbnb í Reykjavík 2.681.Vísir/Vilhelm
2,2 milljarða tekjur vegna Airbnb

Í skýrslunni kemur fram að í lok nóvember á árinu 2015 var fjöldi skráðra gistirýma á Airbnb í Reykjavík 2.681 en þau voru 1.188 í desember á árinu 2014. Skráðum gistirýmum hefur því fjölgað um 126% á tæpu ári. Flest gistirýmin eru skráð í miðbænum og á nærliggjandi svæðum.

Á 12 mánaða tímabili frá og með nóvember á árinu 2014 voru seldar um 89,5 þúsund nætur í gegnum Airbnb á þeim gistirýmum sem skráð eru í Reykjavík. Ef gert er ráð fyrir því að fjöldi gesta hafi verið samkvæmt leyfilegu hámarki hverju sinni má áætla að fjöldi gistinótta yfir áðurgreint 12 mánaða tímabil hafi verið 357,6 þúsund.

Sjá einnig: Rúmlega tvöföldun í fjölda gistirýma á Airbnb

Til samanburðar þá nam fjöldi gistinótta hótela á höfuðborgarsvæðinu yfir sama tímabil um 1.782 þúsundum. Seldar gistinætur í gegnum Airbnb voru því um 20% af gistinóttum á hótelum.

Á þessu sama tímabili voru heildartekjur aðila með skráð gistirými á Airbnb í Reykjavík um 2,22 milljarðar króna. Tekjur hótela á höfuðborgarsvæðinu yfir sama tímabil námu 14,5 milljörðum. Nema tekjur í gegnum Airbnb yfir 12 mánaða tímabil því rúmlega 15% af þeim tekjum sem hótelmarkaðurinn aflaði yfir sama tímabil


Tengdar fréttir

Fjögur prósent íbúða leigð túristum

Um fjögur prósent allra íbúða í Reykjavík eru í útleigu til ferðamanna samkvæmt nýrri skýrslu sem Háskólinn á Bifröst kynnti fyrir iðnaðar- og viðskiptaráðherra í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×