Flensburg tók sig til og vann Rhein-Neckar Löwen á útivelli, 25-22, í stórleik kvöldsins í þýsku 1. deildinni í handbolta.
Mikil spenna var í leiknum framan af. Staðan var 13-13 í hálfleik og var jafnt á öllum tölum í þeim síðari fram að 17-17. Þá skoraði Flensburg þrjú mörk í röð og breytti stöðunni í 20-17. Þetta bil náðu Ljónin aldrei að brúa, en þegar þrjár og hálf mínúta voru eftir var munurinn orðinn fjögur mörk, 24-20.
Alexander Petersson skoraði eitt mark úr þremur skotum fyrir Rhein-Neckar Löwen í kvöld en Stefán Rafn Sigurmannsson komst ekki á blað.
Flensburg missti Svíann Johan Jakobsson út af með rautt spjald í fyrri hálfleik. Virkilega flottur sigur hjá Flensburg sem er áfram í þriðja sæti deildarinnar með 33 stig, stigi á eftir Kiel.
Löwen, sem byrjaði deildina frábærlega, er aðeins að missa flugið á toppi deildarinnar, en það er nú búið að vinna 18 leiki og tapa þremur. Ljónin eru áfram á toppnum með 36 stig, en Kiel er aðeins tveimur stigum á eftir þeim núna og á leik til góða.
Ljónin að missa flugið á toppnum
Tómas Þór Þórðarson skrifar

Mest lesið



KA fékk færri athugasemdir en Crystal Palace
Íslenski boltinn


Leikmenn Liverpool þurfa að mæta í vinnuna í dag
Enski boltinn




