Viðskipti innlent

Vilja auðvelda útleigu heimila í 90 daga á ári

Samúel Karl Ólason skrifar
Tilefni tillögunnar er stóraukinn fjöldi ferðamanna sem koma hingað til lands og hve algengt það er orðið að einstaklingar leigi út heimili sín til ferðamanna.
Tilefni tillögunnar er stóraukinn fjöldi ferðamanna sem koma hingað til lands og hve algengt það er orðið að einstaklingar leigi út heimili sín til ferðamanna. Vísir/GVA
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, lagði til breytingar á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald á Alþingi í dag. Tilefni tillögunnar er stóraukinn fjöldi ferðamanna sem koma hingað til lands og hve algengt það er orðið að einstaklingar leigi út heimili sín til ferðamanna.

Breytingunum er ætlað að gera fólkið auðveldara að leigja út heimili sín og aðrar fasteignir í allt að 90 daga á ári. Þau skilyrði sem felast í útleigu af þessu tagi eru skráning hjá sýslumanni, greiðsla skráningargjalds og að fasteignin uppfylli brunakröfur.

Þá mun umhverfis- og auðlindaráðherra breyta reglugerð um hollustuhætti, þannig að aðilum dugi að tilkynna um útleigu og sæta eftirliti, í stað þess að sækja um starfsleyfi.

„Þá verða tekin upp númer sem skráðum heimagistingaraðilum sem og öðrum rekstrarleyfishöfum verður skylt að nota í allri markaðssetningu, þar á meðal á vefsíðum og auglýsingum. Þetta mun gera eftirlit með gisti- og veitingaiðnaðinum auðveldara auk þess að styrkja neytendavernd þeirra sem kaupa gistiþjónustu hér á landi,“ segir í tilkynningu frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Meðal markmiða frumvarpsins er að draga úr svartri starfsemi og einfalda regluverkið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×