Viðskipti innlent

Þrjú útibú Íslandsbanka sameinast í Norðurturni

Sæunn Gísladóttir skrifar
Nýtt útibú Íslandsbanka mun opna næstkomandi haust í Norðurturni Smáralindar.
Nýtt útibú Íslandsbanka mun opna næstkomandi haust í Norðurturni Smáralindar. vísir/gva
Nýtt útibú Íslandsbanka mun opna næstkomandi haust á nýjum stað í Norðurturni Smáralindar. Munu þrjú útibú sameinast í Norðurturni, útibúin í Þarabakka, á Digranesvegi og á Garðatorgi, og verður þetta því eitt af stærstu útibúum bankans, segir í tilkynningu.

Hönnun og virkni útibúsins tekur mið af breyttum áherslum í þjónustu sem snýst í auknum mæli um ráðgjöf og minna um einfaldari færslur sem viðskiptavinir geta framkvæmt með öðrum dreifileiðum, eins í hraðbönkum, netbanka og appi.

Markmið með sameiningunni er að starfrækja öflugt útibú í miðju höfuðborgarsvæðisins sem veitir bæði einstaklingum og fyrirtækjum góða fjármálaþjónustu í nýju og glæsilegu húsnæði. Mikil uppbygging er fyrirhuguð á svæðinu og verður aðgengi mjög gott fyrir viðskiptavini.

Útibússtjóri nýs sameinaðs útibús verður Lilja Pálsdóttir, núverandi útibússtjóri útibúsins í Þarabakka.

Einhverjar hagræðingar verða við sameininguna, færri starfsmenn munu starfa í nýja útibúinu en í hinum þremur samtals. „Það verður hagrætt, ekki hafa verið teknar ákvarðanir með í hvaða hagræðingaraðgerðir verður farið en reynt verður að gera það að hluta til í gegnum starfsmannaveltu og einnig hafa einhverjir starfsmenn ákveðið að skipta um störf við þessa breytingu," segir Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka. 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×