Körfubolti

Martin leikmaður umferðarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Martin er fjórði stigahæsti leikmaður frönsku B-deildarinnar.
Martin er fjórði stigahæsti leikmaður frönsku B-deildarinnar. vísir/bára dröfn
Martin Hermannsson hefur byrjað atvinnumannaferilinn af miklum krafti.

Martin, sem er 22 ára, gekk til liðs við franska B-deildarliðið Charleville-Mézières í sumar og hefur farið frábærlega af stað með liðinu á tímabilinu.

Martin átti stórleik þegar Charleville-Mézières bar sigurorð af Vichy-Clermont, 94-80, á föstudagskvöldið.

Íslenski landsliðsmaðurinn var stiga- og stoðsendingahæstur allra á vellinum. Hann skoraði 26 stig, tók sjö fráköst og gaf níu stoðsendingar. Martin hitti úr níu af 15 skotum sínum utan af velli og sex af sjö vítum hans fóru ofan í.

Fyrir þessa frammistöðu var Martin valinn leikmaður 8. umferðar í frönsku B-deildinni. Þess má geta að Aaron Broussard, fyrrverandi leikmaður Grindavíkur, var í 3. sæti í valinu á leikmanni 8. umferðarinnar.

Martin er í 4. sæti yfir stigahæstu leikmenn deildarinnar en hann er með 19,4 stig að meðaltali í leik. Martin er jafnframt sjötti stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar (6,13) og í 4. sæti yfir framlagshæstu leikmenn í deildinni (20,8).

Martin og félagar í Charleville-Mézières eru í 2. sæti deildarinnar en þeir hafa unnið sex af átta leikjum sínum í vetur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×