Viðskipti innlent

Landsbankinn hagnast um 6,4 milljarða

ingvar haraldsson skrifar
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans.
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans. vísir/daníel/vilhelm
Landsbankinn hagnaðist um 6,4 milljarða króna eftir skatta fyrstu þremur mánuðum ársins 2015 en hagnaður á sama tímabili árið 2014 nam 4,3 milljörðum króna. Rekstrartekjur bankans hafa aukist sem skýrist að miklum hluta af auknum hagnaði af hlutabréfum á tímabilinu. Arðsemi eigin fjár eftir skatta nam 10,6% samanborið við 7,3% fyrir sama tímabil árið 2014.

Hreinar vaxtatekjur námu 7,3 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins í samanburði við 7,9 milljarða króna á sama tímabili árið 2014. Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna lækkar, var 2,6% á fyrstu þremur mánuðum ársins en 2,7% á sama tímabili árið 2014.Hreinar þjónustutekjur námu 1,6 milljörðum króna og hafa aukist um 8% frá sama tímabili árið áður.Aðrar rekstrartekjur hækka um 5 milljarða króna sem skýrist að mestu af auknum hagnaði af hlutabréfum. Virðisbreytingar útlána á fyrstu þremur mánuðum ársins voru jákvæðar um 1,6 milljarða króna.

Steinþór Pálsson, bankastjóri segir Rekstur bankans hefur gengið vel það sem af er ári.

„Staða hans er áfram sterk og þrátt fyrir 24 milljarða arðgreiðslu er eigið fé bankans mjög hátt. Bæði útlán og innlán hafa aukist umtalsvert og sífellt fleiri eiga í viðskiptum við Landsbankann. Með sameiningu við Sparisjóð Vestmannaeyja fjölgar enn í hópi viðskiptavina en Landsbankinn er vel undir það búinn að taka á móti þeim. Þá fjölgar í hluthafahópi bankans sem er ánægjulegt. Viðamikilli stefnumótun til næstu fimm ára lauk á fyrsta ársfjórðungi en markmið stefnunnar er að tryggja arðsaman og hagkvæman rekstur til lengri tíma. Sýn bankans er áfram að vera til fyrirmyndar og að vera traustur samherji sinna viðskiptavina í fjármálum, að þeir hafi ávinning af viðskiptunum við bankann og það sé gagnkvæmt. Bankinn ætlar að vera hreyfiafl og starfa í sátt við umhverfið og samfélagið þannig að viðskiptavinir geti sagt: „svona á banki að vera“. “


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×