Upp úr slitnaði í samningaviðræðum Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins í gær. Starfsgreinasambandið hefur farið fram á að lægstu laun hækki um 50 prósent á næstu þremur árum.

Björn segir að Starfgreinasambandið hafi farið fram á að laun lægst laun félagsmanna hækki úr 201 þúsund krónum á mánuði og í a.m.k. 250 þúsund krónur á næstu 18 mánuðum og svo í 300 þúsund krónur á næstu þremur árum.
Segir lækkanir hafa átt að ganga upp allan launstigann
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífisins, segir, í samtali við bítið, fjarri því að Starfsgreinasambandið hafi aðeins farið fram á hækkun lægstu launa heldur hafi hækkanir átt að fara upp allan launastigann. Slíkt myndi hækka meðallaun í landinu um tugi prósenta og hafa mikil áhrif á á verðlag. Samtök atvinnulífsins telja ekki svigrúm fyrir nema 3-4 prósenta launahækkanir á ári.
„Við fórum mjög vandlega yfir það með samninganefnd SGS hvaða áhrif það myndi hafa á verðlagsþróun ef slíkar launahækkanir gengu yfir hagkerfið,“ segir Þorsteinn.
Þjóðfélagið ekki sagt fara á hliðina þegar aðrir hækka í launum
Björn deilir ekki áhyggjum Þorsteins af aukinni verðbólgu. „Ég hef aldrei heyrt að þegar aðrir hópar hafa verið að hækka um kannski tvöfalda upphæð sem við erum að tala um að þjóðfélagið er að fara á hausinn eða allt sé að fara til fjandans svo ég vísa þessu aftur til föðurhúsanna,“ segir Björn.

Markmið að fólk lifi af launum sínum
Björn býst ekki að verði fundað á næstu dögum og flest stefni í verkföll.
Þá segist Björn finna fyrir miklum stuðningi við kröfur Starfsgreinasambandsins. „Ég held að við höfum mikinn meðbyr að hækka þessi laun. Það er ljóst að lægstu launin sem duga fólki ekki til að framfleyta sér. Það hlýtur að vera markmið í þessu þjóðfélagi sem við teljum að búi yfir miklum kostum hafi möguleika að lifa af þessu.“