Viðskipti innlent

Hampiðjan stofnar fyrirtæki í Ástralíu

ingvar haraldsson skrifar
vísir/anton brink
Hampiðjan hefur ákveðið að stofna sölufyrirtæki í Brisbane á austurströnd Ástralíu. Fyrirtækið mun selja net, kaðla og ofurtóg. 

Hampiðjan rekur nú fyrirtækið Hampidjan New Zealand á tveim stöðum á Nýja Sjálandi og hefur það fyrirtæki selt inn á ástralska markaðinn.  En vegna fjarlægðar og dýrra flutninga hefur það ekki skilað tilætluðum árangri og því er það skref stigið að stofna nýtt fyrirtæki á þessu markaðssvæði segir í tilkynningu frá Hampiðjunni.  Fyrirtækið á Nýja Sjálandi verður rekið með óbreyttu sniði og getur nú einbeitt sér að fullu að markaðinum þar.

Ástralska fyrirtækið mun bera nafnið Hampidjan Australia og verður stofnað í samstarfi við Þorstein Benediktsson sem hefur búið og unnið í Ástralíu undanfarin átta ár og rekið þar fyrirtæki sem hafa sinnt sjávarútvegi og selt vörur til útgerða.

„ Hampiðjan mun eiga 80% af hlutafé nýja fyrirtækisins og Þorsteinn 20%.  Þorsteinn Benediktsson mun einnig verða framkvæmdastjóri fyrirtækisins.   Samhliða því að selja vörur Hampiðjunnar mun Hampidjan Australía selja vörur til útgerðar frá öðrum framleiðendum,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Vonast er til að starfsemi fyrirtækisins hefjist í lok þessa mánaðar og byggist upp að mestu innan þessa árs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×