Viðskipti innlent

Samkeppniseftirlitið samþykkir yfirtöku Landsbankans á Sparisjóði Norðurlands

ingvar haraldsson skrifar
vísir/pjetur
Samkeppniseftirlitið telur að ekki forsendur til íhlutunar vegna yfirtöku Landsbankans á Sparisjóði Norðurlands.



Ástæður þess eru að Sparisjóðurinn hafi verið á fallandi fæti og þurft á frekara fjárframlagi að halda. „Sparisjóðurinn uppfyllir ekki lagaskilyrði starfsleyfisskylds fjármálafyrirtækis. Honum er ómögulegt af eigin rammleik að uppfylla eiginfjárkröfur Fjármálaeftirlitsins. Stærsti stofnfjáreigandinn í sjóðnum, ríkissjóður, sem fer með tæplega 80% hlut í sjóðnum, hefur alfarið hafnað því að leggja sparisjóðnum til fé. Meðal annars þess vegna voru kröfuhafar ekki reiðubúnir til að koma að lausn málsins,“ segir í úrskurði Samkeppniseftirlitsins.

Sparisjóðurinn hafi gripið til ráðstafana til þess að fá þriðju aðila, aðra en viðskiptabankana þrjá, til að leggja sjóðnum til fé og gerast eigendur að sjóðnum en ekki gengið.

Þá hafi annmarkar á söluferlinu, bæði hvað varðar tímafresti og skilyrðum gagnvart einstökum fjárfestum, ekki breytt niðurstöðu málsins. „Ræður þar miklu að bjóðendur höfðu þekkingu á málinu vegna aðkomu að sölutilraunum annarra sparisjóða, auk þess sem þeir sögðu sig frá málinu áður en reynt hafði til fullnustu á tímafresti. Þá hafði einn hinna mögulegu fjárfesta ekki sýnt fram á hæfi sitt til að fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki, þrátt fyrir að FME hefði leiðbeint honum þar um.“

Engu síður geti tilvist sparisjóða falið í sér tækifæri til aukinnar samkeppni, t.d. með því að eignir þeirra, starfsleyfi og viðskiptavild nýtist til uppbyggingar á nýju afli sem veitt getur samkeppnisaðhald. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×