Viðskipti innlent

Hættir vegna óánægju innan stjórnar Símans

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Samsett mynd. Magnús Ragnarsson, fyrrverandi aðstoðarmaður menntamálaráðherra, hefur látið af starfi formanns Þjóðleikhúsráðs eftir aðeins sex vikur í starfi.
Samsett mynd. Magnús Ragnarsson, fyrrverandi aðstoðarmaður menntamálaráðherra, hefur látið af starfi formanns Þjóðleikhúsráðs eftir aðeins sex vikur í starfi.
Óánægja innan stjórnar Símans varð til þess að Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri vöru- og markaðssetningar hjá Símanum, sem einnig er fyrrverandi aðstoðarmaður Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur látið af störfum sem formaður Þjóðleikhúsráðs, eftir sex vikur í starfi.

Á mánudag birtist tilkynning á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins um að ráðherra hefði orðið við ósk Magnúsar um að leysa hann frá störfum í Þjóðleikhúsinu, þar sem hann gæti af persónulegum ástæðum ekki sinnt starfinu. Nýjan formann á að skipa á næstu dögum.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins vissu stjórnarmenn Símans ekki af formannsskipan Magnúsar fyrr en tilkynnt var um hana á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins 21. nóvember síðastliðinn.

Innan stjórnarinnar var þeim sjónarmiðum haldið á lofti að á meðan stefnt væri að skráningu félagsins á markað væri ekki ráðrúm til þess að starfsmenn dreifðu kröftum sínum víðar með stjórnarsetum eða viðlíka störfum. Þá væri ekki við hæfi að starfsmenn settu sig í þá stöðu að nafn Símans gæti mögulega dregist inn í deilur um mál óskyld félaginu.

Í samtali við blaðamann Fréttablaðsins um miðjan desember, sem pata hafði af þróun mála, sagðist Magnús ekki ætla að hætta sem formaður Þjóðleikhúsráðs, þótt staða hans hefði komið til tals innan Símans. Hann gerði ráð fyrir að geta í sátt og samlyndi sinnt báðum störfum.

„Ég vonaðist til þess í bjartsýni minni að þetta gæti gengið,“ segir Magnús. Þá hafi hins vegar þegar verið hafið samtal um stöðuna milli hans og einstakra stjórnarmanna.

„Spurningar vöknuðu um hvort heppilegt væri að framkvæmdastjórar væru að bæta á sig verkefnum í ljósi þess að við værum að fara á markað á næsta ári og mikið álag á mannskapnum,“ segir hann.

Niðurstaðan hafi svo verið sameiginleg ákvörðun hans og stjórnarmanna um að heppilegast væri að vera ekki í aukaverkefnum í bili. Verkefni númer eitt væri að fara með stórfyrirtæki á markað. Uppsagnarbréf sendi Magnús svo ráðherra milli jóla og nýárs.

„Ég sagði í umsögn til ráðherra og bréfi sem ég skrifaði Þjóðleikhúsráði að ég vildi undir engum kringumstæðum lenda í þeirri stöðu að geta ekki gegnt þessu embætti af einurð og festu. Verst væri fyrir alla ef maður væri að gera eitthvað með hálfu afli.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×