Viðskipti innlent

365 tapaði 1,4 milljörðum á síðasta ári

Sæunn Gísladóttir skrifar
Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365, segir ánægjulegt að fyrsti helmingur ársins 2015 sýni góðan visnúning í rekstri.
Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365, segir ánægjulegt að fyrsti helmingur ársins 2015 sýni góðan visnúning í rekstri. Vísir/Daníel
365 tapaði tæplega 1,4 milljörðum á síðasta ári. Tekjur voru rúmir 10 milljarðar og rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði fyrir einskiptisliði nam 644 milljónum króna.

Viðsnúningur varð á árinu en hagnaðar af rekstri fyrstu sex mánuði ársins 2015 nam 106 milljónum króna. Sala jókst um 24 prósent á fyrri árshelmingi 2015 og námu tekjur 5,6 milljarður króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 574 milljónum króna, samanborið við 218 milljónir króna á fyrri árshelmingi 2014. EBITDA sem hlutfall af tekjum var 10,2 prósent, samanborið við 4,8 prósent árið áður.

„Það er ánægjulegt að fyrsti helmingur ársins 2015 sýni góðan viðsnúning í rekstri miðað við fyrra ár. Árið 2014 var um margt sérstakt. 365 hafði þá ný hafið starfsemi á fjarskiptamarkaði, sem hafði tímabundið í för með sér aukin kostnað fyrir félagið. Tekjuvöxtur var töluverður eða 13% í áskriftarsölu sjónvarps, auglýsingasala var undir væntingum en jókst um 3%, fjarskiptatekjur jukust umtalsvert eða um 877% milli ára í kjölfar sameiningar við Tal,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri í tilkynningu.

„Mörgum mikilvægum verkefnum lauk á síðasta ári sem styrktu rekstrargrundvöll 365 til lengri tíma. Þar ber fyrst að telja sameining við Tal sem rennir enn frekari stoðum undir fjarskiptarekstur félagsins. Gengið var frá endurfjármögnun félagsins og á árinu voru sameinaðir A- og B-flokkar hlutafjár og hlutafé aukið í nýjum B-flokki hlutafjár um 445 millj.kr. Jafnframt var gripið til umfangsmikilla hagræðingaraðgerða, skorið niður í mannahaldi og yfirstjórn sem og kostnaðarlækkunum náð fram í samningum við birgja. Fleiri áfangar náðust sem stuðla að betri afkomu á þessu ári. Þar má helst nefna að Stöð 2 er nú heimili HBO sem tryggir aðgang að besta sjónvarps efni í heimi , markaðssérfræðingum og tengslaneti HBO. Maraþon var bætt við sem aukinni þjónustu við áskrifendur. Sjónvarpsfréttir, Bylgjan og visir.is hafa styrkt sig í samkeppni gagnvart helstu keppinautum.“ Þá litu breytingar á Fréttablaðinu dagsljósið í ágúst og hefur þeim verið vel tekið. Þá verður í ríkari mæli horft til vandaðra innlendrar dagskrágerðar á miðlum 365 og hefur Jón Gnarr verið ráðinn til að fylgja því eftir. Horfur í rekstri eru góðar en seinni hluti ársins er að jafnaði betri en fyrri. Félagið mun áfram kynna heimilum landsins frábær tilboð í fjarskiptum,“ segir Sævar.

365 er útgefandi Vísis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×