Matur

Stútfull gjafakarfa af góðgæti

Glæsileg gjafakarfa
Glæsileg gjafakarfa

Sjónvarpskokkurinn Eyþór Rúnarsson gefur gómsætar uppskriftir á Stöð 2 fram að jólum. Í gær töfraði hann fram fjölbreytta og hátíðlega rétti sem setja má í glæsilega gjafakörfu.

Grafin gæs

Grafin gæsabringa

2 gæsabringur

150 g púðursykur

150 g gróft salt



Kryddblanda

1 msk. rósapipar

2 msk. sinnepsfræ

1 stk. anísstjarna

2 kaffibaunir



Blandið saman sykrinum og saltinu. Setjið öll kryddin saman í mortél og myljið þau þar til þau eru orðin fínt möluð. Hjúpið gæsabringurnar með salt- og sykurblöndunni og stráið því næst kryddunum undir og yfir gæsabringurnar. Setjið bringurnar inn í ísskáp og látið standa þar með plastfilmu yfir í 12 tíma.

andalæri

Andaconfit

4 stk. andalæri

100 g gróft salt

100 g púðursykur

8 stk. timíangreinar (gróft skornar)

¼ bréf salvía (gróft skorin)

4 hvítlauksrif (gróft skorin)

1 appelsína (bara börkurinn fínt rifinn)

500 g andafita

500-1000 ml sólblómaolía



Setjið saltið og púðursykurinn í skál og blandið saman. Hjúpið andalærin með blöndunni. Dreifið öllu hráefninu nema appelsínunni jafnt yfir og undir lærin. Rífið börkinn af appelsínunni jafnt undir og yfir lærin. Setjið lærin inn í ísskáp og látið standa þar í 6 klst. Skolið kryddin og salt- og sykurblönduna af lærunum og setjið í eldfast form.

Hellið fitunni yfir lærin og fyllið upp með olíunni svo það fljóti vel yfir lærin. Setjið inn í 130 gráðu heitan ofninn í 3 klst. Takið úr fitunni og setjið á bökunargrind og látið kólna inn í ísskáp.

Hindberja- og engifersulta

Hindberja- og engifersulta

300 g frosið engifer

30 g rifið ferskt engifer

100 g hrásykur

1 lime (fínt rifinn börkur)



Setjið allt hráefnið í pott og sjóðið við vægan hita í 30 mín. Maukið með töfrasprota og smakkið til með lime-safanum og kælið.

Paté

Paté

250 g smjör

100 g beikon (skorið í litla bita)

200 g laukur (gróft skorinn)

250 ml púrtvín

500 g kjúklingalifur

5 egg

15 g salt

¼ tsk. timían

200 g hreinsað smjör (bráðið)



Setjið smjörið í pott og bræðið við vægan hita. Hellið smjörinu úr pottinum yfir í könnu en skiljið mjólkina sem kemur úr smjörinu eftir í pottinum. Þá ættu að vera eftir um 200 ml af hreinsuðu smjöri.

Steikið laukinn og beikonið saman í um 5 mín. eða þar til laukurinn er orðinn mjúkur í gegn. Hellið púrtvíninu út í pottinn og látið sjóða í um 2 mín. Takið pottinn til hliðar í 10 mín. og látið innihaldið kólna.

Brjótið eggin og setjið í blender-skál með kjúklingalifrinni, beikoninu, lauknum, púrtvíninu og öllum kryddunum. Setjið blenderinn í gang í um 30 sek. eða þar til allt er blandað saman. Bætið hreinsaða smjörinu smám saman út í blenderinn. Setjið blönduna í litla leirpotta og svo ofan í djúpa bökunarplötu sem er hálf full af vatni.

Bakið við 150 gráður í 30 mín. eða þar til pat­éið er fullbakað í gegn. Takið patéið úr ofnskúffunni og látið kólna í um 15 mín. Setjið það svo í ísskápinn og látið kólna þar í um 90 mín. Takið patéið að lokum úr ísskápnum og hellið púrtvíns- og rifsberjahlaupinu yfir og setjið aftur inn í ísskáp.

Púrtvíns - rifsberjahlaup

150 ml púrtvín

2 msk. rifsberjagel

1 matarlímsblað

Setjið matarlímsblaðið í kalt vatn í 10 mín. Sjóðið upp á púrtvíninu og rifsberjagelinu og bætið svo matarlíminu út í og látið það leysast upp.

Omnom lakkríssúkkulaðipopp

Omnom lakkríssúkk­ulaðipopp

50 g poppmaís

3 msk. kókosolía

120 g Omnom lakkrís + Sea Salt (2 plötur)

1 msk. smjör

Lakkrís-salt frá Saltverk



Bræðið súkkulaðið við vægan hita í vatnsbaði ásamt 1 msk. af kókos­olíu. Hitið kókosolíu í potti og bætið poppmaísnum við. Setjið lokið yfir og poppið. Setjið poppið í skál og hellið súkkulaðinu yfir og blandið öllu saman með sleif og smakkið til með vel af lakkríssaltinu. Setjið poppið á bökunarplötu með smjörpappír og látið kólna í 1 klst.

Kanilkex

Kanilkex

280 g smjör, við stofuhita

300 g hveiti

50 g möndluduft

7 g lyftiduft

70 g flórsykur

60 g eggjarauða

12 g kanill

1 msk. romm

2 g fínt salt

1 plata Himneskt súkkulaði

1 sítróna 

Sjávarsalt



Þeytið smjörið þar til það er orðið létt og ljóst. Bætið flórsykrinum út í og þeytið saman í um 2 mín. Setjið K-stykkið í vélina og bætið restinni af hráefninu út í og vinnið saman í um 2 mín. Setjið deigið á smjörpappír og setjið svo annan smjörpappír yfir og fletjið deigið jafnt út þar til það er 5 mm þykkt. Setjið deigið á bökunarplötu og inn í frysti í um 30 mín. Takið deigið út og skerið í ca 4 x 6 cm kökur. Raðið deiginu á bökunarplötu með smjörpappír og setjið inn í 170 gráðu heitan ofninn í 16 mín. Takið kexið út og rífið um 2 msk. af súkkulaði yfir það, rífið svo sítrónubörkinn yfir og endið á að setja smá sjávarsalt á toppinn.

Valhnetusinnepsdressing

Valhnetusinnepsdressing

50 g gróft sinnep

15 g sesamolía

30 g tamarisósa

50 g balsamik

200 ml ólífuolía

50 g valhnetur (ristaðar í ofni við 150 gráður í 20 mín.)



Setjið allt nema valhneturnar saman í blender og vinnið saman í 2 mín. Skerið valhneturnar gróft niður og bætið út í dressinguna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×