Viðskipti innlent

Heildarútgjöldin námu 320 milljörðum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þegar Bjarni Benediktsson kynnti fjárlagafrumvarpið lagði hann áherslu á að það yrði hallalaust.
Þegar Bjarni Benediktsson kynnti fjárlagafrumvarpið lagði hann áherslu á að það yrði hallalaust. vísir/gva
Heildarútgjöld ríkissjóðs á fyrstu sex mánuðum ársins voru innan fjárheimilda, að því er fram kemur í ársfjórðungsuppgjöri. Meirihluti fjárlagaliða er innan fjárheimilda á fyrstu sex mánuðum ársins.

Heildarútgjöldin námu 319,7 milljörðum króna á tímabilinu og voru 104 milljónum innan heimildar. Samtals eru 233 fjárlagaliðir með útgjöld innan heimilda ársins.

123 fjárlagaliðir eru með útgjöld umfram fjárheimildir ársins en hjá meirihluta þeirra er hallinn innan við 10 milljónir króna, eða samtals 233 milljónir. Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að gert sé ráð fyrir að flestir þessara liða verði innan heimilda í árslok. Stærstur hluti umframútgjalda skýrist af fáum liðum en af 15 stærstu umframútgjaldaliðum fara þrír liðir samtals 4,7 milljarða króna fram úr fjárheimildum. Þar á meðal eru Sjúkratryggingar og Vegagerðin.

Ráðuneyti bera hvert um sig ábyrgð á því að dreifing fjárheimilda innan ársins sé sem næst áætlaðri dreifingu raunútgjalda og er lögð áhersla á að ráðuneyti yfirfari vandlega dreifingu fjárheimilda innan ársins á þeim liðum sem undir þau heyra.

Þegar Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti fjárlagafrumvarpið síðasta haust lagði hann áherslu á það markmið að fjárlög yrðu hallalaus, en gert yrði ráð fyrir 4,1 milljarðs króna afgangi. Til að sá árangur náist er mikilvægt að heildarútgjöld verði áfram innan heimilda á seinni árshelmingi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×