Viðskipti innlent

Blikur á lofti fyrir sjávarútveginn

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Pjetur
Blikur eru í lofti fyrir sjávarútveginn samkvæmt Samtökum atvinnulífisins. Breytingar á alþjóðavettvangi hafa slæm áhrif á afkomu einnar stærstu útflutningsgreina Íslands.

„Viðskiptabann Rússlands, möguleg lokun Nígeríumarkaðar, áhyggjur af lækkandi heimshagvexti ásamt lakari samkeppnisskilyrðum samhliða styrkingu raungengis eru allt þættir sem snerta atvinnugreinina, tekjur hennar og þar með heildarhagsmuni þjóðarbúsins.“

Í nýrri skýrslu SA segir að mikilvægi sjávarútvegs  í íslensku efnahagslífi sé óumdeilt. Framlag geirans til landsframleiðslu á síðasta ári hafi verið 8,4 prósent og ríflega níu þúsund manns hafi starfað við fiskveiðar og fiskvinnslu. Það jafngildir um fimm prósent heildarfjölda starfandi á Íslandi.

Þrátt fyrir áðurnefndar blikur á alþjóðavettvangi segir að sjávarútvegurinn sé vanur að takast á við ýmis áföll og að fiskveiðistjórnunarkerfið geri fyrirtækjum auðveldara en ella að takast á við ytri áföll.

Viðskipti Íslands og Rússlands nánast hverfa

SA metur að áhrif viðskiptabanns Rússa gætu verið frá ellefu til sautján milljarðar króna. Þar sem bannið snúi aðeins að matvælum komi það einstaklega illa fyrir Íslendinga þar sem þau eru um 40 prósent af vöruútflutningi okkar. Það er langhæsta hlutfallið meðal landa innan evrópska efnahagssvæðisins, þar sem meðaltalið er ellefu prósent.

„Viðskipti Íslands og Rússlands munu þar með nánast hverfa þar sem ríflega 80% af útflutningi okkar til landsins eru matvæli. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands fluttu Íslendingar út sjávarafurðir fyrir tæpa 24 ma.kr. til Rússlands árið 2014.“

Markaðir í Nígeríu í hættu

Sjávarafurðir fyrir um fimmtán milljarða voru fluttar til Nígeríu í fyrra. Mikill gjaldeyrisskortur er nú þar í landi og stefnt er á að landið verði sjálfu sér nægt um sjávarafurðir. Um er að ræða þurrkaðar afurðir sem erfitt er að koma í verð annarsstaðar og því líklegt að stór hluti þeirra færi í bræðslu. SA metur áhrif vegna lokunar markaða þar um sex milljarða króna.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og OECD gera ráð fyrir 3-4 prósenta heimsvexti á þessu og næsta ári en hætt er að dregið verði úr þeim spám vegna vandræða kínverska hagkerfisins. Þá gætu lækkanir olíuverðs leitt til minnkandi kaupgetu nokkurra viðskiptaríkja Íslands.

Í skýrslu SA segir einnig að líklegt sé að eftirspurn eftir íslenskum fiski gæti dregist saman ef til áfalla kæmi í heimsbúskapnum. Hver prósentulækkun fiskverðs lækkar útflutningsverðmæti íslenskra sjávarafurða um 2,5 milljarða, sé miðað við árið í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×