Icelandair býst við að afkoma verði betri á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en áætlanir fyrirtækisins gerðu ráð fyrir. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar Íslands.
Samkvæmt drögum að árshlutareikningi batnar afkoman vegna vegna hærri tekna og betri nýtingar. Icelandair býst við að afkoma af rekstri félagsins áður en til afskrifta, fjármagnsliða, virðisbreytinga og skatta kemur (EBITDA) verði neikvæð um 2-4 milljónir bandaríkjadala, milli 270 og 540 milljónir króna.
Sætanýting í millilandaflugi var 4,9 prósentustigum hærri en á sama tímabili á síðasta ári og herbergjanýting hótela var 7,8 prósentustigum hærri. Hins vegar var þróun evru gagnvart bandaríkjadal óhagstæðari en gert var ráð fyrir.
Árshlutareikningur Icelandair fyrir fyrsta ársfjórðung 2015 verður birtur 29. apríl næstkomandi.
Icelandair býst við afkomu umfram áætlanir
