Landsliðsfélagarnir Arnór Atlason annars vegar og Snorri Steinn Guðjónsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson hins vegar áttust við þegar lið þeirra. St. Raphael og Nimes, mættust í frönsku úrvalsdeildinni í kvöld.
Svo fór að St. Raphael hafði betur, 35-33, en Arnór skoraði þrjú mörk í fimm skotum fyrir liðið. Hann brenndi reyndar af einu víti í leiknum.
Snorri Steinn var að venju atkvæðamikill í liði Nimes en hann var markahæstur í leiknum með níu mörk úr þrettán skotum. Ásgeir Örn skoraði tvö mörk úr sjö skotum.
Jafnræði var með liðunum allan leikinn en St. Raphael náði að síga fram úr á lokamínútunum. St. Raphael er í öðru sæti deildarinnar með tólf stig en Nimes því fimmta með níu stig.

