Viðskipti innlent

Segir styrkingu dollara hamla enn frekari lækkun á bensínverði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Bensínið væri komið niður í 187 krónur á lítrann hefði dollarinn ekki styrkst svona gagnvart krónunni og öðrum gjaldmiðlum,“ segir Hugi Hreiðarsson hjá Atlantsolíu.
„Bensínið væri komið niður í 187 krónur á lítrann hefði dollarinn ekki styrkst svona gagnvart krónunni og öðrum gjaldmiðlum,“ segir Hugi Hreiðarsson hjá Atlantsolíu. Vísir/Anton
Atlantsolía lækkaði í dag verð á bensíni og dísel um tvær krónur og hefur bensínverð því lækkað um 50 krónur frá því um miðjan júní 2014. Þetta staðfestir Hugi Hreiðarsson, markaðsstjóri Atlantsolíu.

Bensínlítrinn kostaði 251,60 krónur hjá Atlantsolíu þann 16. júní síðastliðinn en kostar nú 201,60 krónur.

„Lækkunin skýrist af lækkandi innkaupsverði og heimsmarkaðsverði,“ segir Hugi. Það tefji hins vegar frekari lækkun að bandaríski dollarinn hefur verið að styrkjast gagnvart krónunni.

„Dollarinn var 115 krónur í byrjun september en er nú að detta í 130 krónur,“ segir Hugi. Því muni 15 krónum í styrkingu dollarsins gagnvart krónu.

„Bensínið væri komið niður í 187 krónur á lítrann hefði dollarinn ekki styrkst svona gagnvart krónunni og öðrum gjaldmiðlum.“

Aðspurður hvenær reikna má með því að bensínverðið fari niður fyrir 200 krónur á lítrann segir Hugi erfitt að spá til um það. Styrking krónunnar gagnvart dollara myndi hjálpa til við það.

„Við vonum að það geti gerst. Það er best að vera bjartsýnn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×