Viðskipti innlent

Samþykkti ekki leiðréttinguna á réttum tíma en fær annað tækifæri

Bjarki Ármannsson skrifar
Útreiknuð leiðrétting mannsins var rúmlega 1.3 milljónir króna.
Útreiknuð leiðrétting mannsins var rúmlega 1.3 milljónir króna. Vísir/Vilhelm
Ríkisskattstjóri hefur ákveðið að gefa manni sem samþykkti ekki fjárhæð leiðréttingu á verðtryggðu fasteignaláni sínu innan tiltekinna tímamarka kost á að samþykkja fjárhæðina að nýju. Maðurinn heldur því fram að hann hafi ekki fengið neina tilkynningu í pósti eða tölvupósti um það hvenær frestur hans til að samþykkja fjárhæðina og ráðstöfun hennar rynni út.

Þetta kemur fram í úrskurði úrskurðarnefndar um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána, sem birtur var í síðasta mánuði. Málavextir eru þeir að maðurinn sótti um leiðréttingu ásamt fyrrverandi konu sinni þann 25. maí í fyrra og var honum tilkynnt um það þann 6. mars síðastliðinn að umsókn hans hefði verið skipt vegna breyttrar hjúskaparstöðu. Útreiknuð leiðrétting mannsins var rúmlega 1.3 milljónir króna og var sú fjárhæð birt honum þann 8. mars.

Að því er segir í úrskurðinum lét ríkisskattstjóri manninn vita með tilkynningu þann 3. júní að frestur hans til að samþykkja leiðréttingarfjárhæðina rynni út þann 9. júní og að ekki væri unnt að fá þann frest framlengdan.

Maðurinn segist þó ekki hafa fengið neina tilkynningu í pósti eða tölvupósti og segir að hann hafi ætlað að samþykkja leiðréttinguna eftir að fresturinn rann út. Virðist honum sem tilkynningar hafi verið sendar á tölvupóstfang fyrrverandi eiginkonu sinnar, þaðan sem umsókn um leiðréttingu var upphaflega send.

Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að þann 26. september hafi embætti ríkisskattstjóra ákveðið að eigin frumkvæði að endurbirta niðurstöður útreikninga í máli mannsins og að gefa honum kost á að samþykkja að nýju innan þriggja mánaða frá birtingardegi. Ekki kemur fram í úrskurðinum hvort maðurinn hafi samþykkt fjárhæðina.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×