Viðskipti innlent

Segja skuldir heimilanna geta hækkað um 500 milljarða

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/SA
„Ef laun á vinnumarkaði hækka jafn mikið og laun lækna næstu þrjú árin mun það valda mikilli verðbólgu, gengislækkun krónunnar og verulegri hækkun verðtryggðra skulda,“ segir í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins.

Samkvæmt greiningu samtakanna yrði uppsöfnuð verðbólga á tímabilinu 27 prósent. Verðtryggð lán heimilanna myndu hækka um 500 milljarða króna. Þá myndi kaupmáttur launa aðeins aukast um tvö prósent samkvæmt greiningunni. Þar eru metin áhrif þess að laun á vinnumarkaði hækki til samræmis við kjarasamninga lækna. Aðeins er litið til kaupmáttar launa en ekki ráðstöfunartekna.

„Mikilli verðbólgu samhliða miklum launahækkunum fylgir mikil hækkun verðbóta og vaxta og myndi almenningur því hafa minna á milli handanna ef þessi leið verður farin.“

SA skoðaði einnig aðra sviðsmynd. Ef laun myndu hækka um 3,5 prósent á næstu þremur árum myndi uppsöfnuð verðbólga á tímabilinu verða sjö prósent, samkvæmt greiningunni. Kaupmáttur launa myndi aukast um fjögur prósent og kaupmáttaraukninginn yrði því helmingi meiri ef þessi leið yrði farin samkvæmt SA.

Þá myndu verðtryggð lán heimilanna hækka minna, eða um 120 milljarða í stað 500.

„Reikningurinn sem yrði sendur heimilum landsins í formi verðbóta ef fyrri leiðin verður farin nemur 380 milljörðum króna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×