Viðskipti innlent

Vilja fá ferðamenn allt árið í Húsafell

ingvar haraldsson skrifar
Stefnt er að því að opna Hótel Húsafell um miðjan júlí.
Stefnt er að því að opna Hótel Húsafell um miðjan júlí. fréttablaðið/stefán
„Aðalmarkmiðið er að koma ferðaþjónustunni hérna í heilsársrekstur og geta sinnt fjölbreyttum hópi ferðamanna allt árið,“ segir Bergþór Kristleifsson, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustunnar á Húsafelli, um Hótel Húsafell sem er í byggingu.

„Það hefur ekki verið ferðamannastraumur til Húsafells yfir vetrartímann en við viljum breyta því. Við stefnum að góðri heilsársnýtingu,“ segir Bergþór en nú heimsækja um 80 þúsund manns Húsafell á ári hverju, nánast alfarið yfir sumartímann. Hótelið verður opnað þann 15. júlí næstkomandi. Þegar er byrjað að bóka herbergi á hótelið sem Bergþór segir að gangi ágætlega.

Bergþór Kristleifsson
Hótelið á að vera alhliða útivistarhótel að sögn Bergþórs. „Við erum við hlið hálendisins og ætlum að nýta okkur það. Hér verður margs konar afþreying, hellaferðir, jöklaferðir, gönguferðir og svo eru sund og böð hérna,“ segir Bergþór. Þá er einnig golfvöllur við hótelið. „Við verðum í samstarfi við Icecave sem mun bjóða upp á jöklaferðir inn í Langjökul,“ segir Bergþór.

„Á neðri hæðinni verður þurrkherbergi fyrir útifatnað og aðstaða fyrir göngu- og útivistarfólk,“ bætir hann við. Bergþór telur að Vesturland hafi ekki verið almennilega á kortinu sem ferðamannastaður fyrr en nú. „Það er hótel í Reykholti og í Borgarnesi þannig að við teljum gott pláss fyrir okkur á þeim markaði,“ segir Bergþór.

Hótelið verður á tveimur hæðum með 36 herbergjum, veitingastað og veislusölum. Þá er gert ráð fyrir 12 herbergja stækkun á hótelinu gangi reksturinn eftir væntingum. „Hótelið á að hafa alla burði til þess að verða fjögurra stjörnu hótel,“ segir Bergþór.

Stefnt er að því að kostnaður við byggingu hótelsins verði um hálfur milljarður en það er Ferðaþjónustan á Húsafelli sem stendur fyrir byggingunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×