Viðskipti innlent

Thorsil fær orkuna frá Landsvirkjun og HS Orku

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Thorsil hefur tryggt sér orku í gegnum Landsvirkjun samþykki ESA samningsdrögin.
Thorsil hefur tryggt sér orku í gegnum Landsvirkjun samþykki ESA samningsdrögin. Vísir/GVA
Landsvirkjun og Thorsil hafa komist að samkomulagi um drög að rafmagnssamningi milli félaganna um afhendingu á rafmagni til kísilvers Thorsil í Helguvík. Forstjóri Thorsil hafði áður greint frá því að samningar um orku væru í höfn en vildi ekki upplýsa hvaðan orkan kæmi. Thorsil fær allt að 99 MW en 67 MW koma frá Landsvirkjun en áður hafði náðst samkomulag á milli Thorsil og HS Orku upp á 32 MW. Fyrir lá að að Landsnet sæi um orkuflutning.

Miklar deilur hafa staðið yfir í Reykjanesbæ vegna nýju verksmiðjunnar og fól bæjarráð bæjarstjóra að skipuleggja íbúðarkosningu vegna málsins. Kosningin mun fara fram en bæjarstjóri Reykjanesbæjar segir kosninguna ekki munu hafa neina þýðingu þótt hún fari fram í nóvember.

Fram kemur í tilkynningu frá Landsvirkjun að Landsvirkjun muni senda samningsdrögin í undirbúningsferli hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og bíða niðurstöðu stofnunarinnar áður en samningurinn verður tekinn til umfjöllunar og endanlegrar afgreiðslu í stjórn Landsvirkjunar.Undirritun sé háð tilteknum skilyrðum, svo sem samþykki stjórna beggja félaga og að samningurinn uppfylli kröfur og skilyrði ESA.

Gangsett snemma árs 2018

Ráðgert er að kísilver Thorsil verði gangsett á fyrsta ársfjórðungi 2018. Samkvæmt samningsdrögunum mun Landsvirkjun afhenda Thorsil allt að 67 MW gangi áætlanir eftir. Orkan verður afhent í áföngum úr núverandi aflstöðvakerfi Landsvirkjunar ásamt stækkun sem fyrirhuguð er við Búrfellsvirkjun.  Þá er gert ráð fyrir að síðasti áfangi orkuafhendingar Landsvirkjunar verði við gangsetningu Hvammsvirkjunar um mitt ár 2020.

Samþykki ESA samningsdrögin verður Thorsil þriðji viðskiptavinur Landsvirkjunar í kísilmálmiðnaði

„Við höfum átt gott samstarf við Thorsil og vonum að ESA afgreiði samningsdrögin eins fljótt og unnt er. Samningurinn yrði hagstæður fyrir báða aðila og staðfestir enn á ný þá miklu eftirspurn sem er eftir rafmagni á Íslandi í dag á þeim samkeppnishæfu kjörum sem Landsvirkjun býður,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

Umhverfisstofnun veitti Thorsil starfsleyfi til reksturs verksmiðjunnar í september.

„Með útgáfu Umhverfisstofnunar á starfsleyfi fyrir kísilverið og gerð samninga um kaup á raforku er undirbúningur verkefnisins nú á lokastigi. Í framhaldinu er gert ráð fyrir hægt verði að undirrita fjármögnunarsamninga á næstu mánuðum og að framkvæmdir hefjist á fyrri helmingi næsta árs“ sagði John Fenger stjórnarformaður Thorsil.


Tengdar fréttir

Íbúar funduðu um verksmiðju

Íbúar í Reykjanesbæ funduðu í gærkvöldi um verksmiðju Thorsil í Helguvík út frá áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfis­áhrifum.

Fullyrðir að raforkusamningur sé í höfn

Forstjóri Thorsil segir samninga liggja fyrir milli Thorsil og heildsala raforku um afhendingu 87 MW raforku. Ekki er gefið upp hvaðan orkan eigi að koma. Hvorki Landsvirkjun né Orkuveita Reykjavíkur segjast tryggja Thorsil raforku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×