Viðskipti innlent

Björgólfur Thor á allt að 210 milljarða í samsteypu

Sæunn Gísladóttir skrifar
Í sumar var greint frá því að eignarhlutur Björgólfs í Allergan nemi í kringum eitt prósent.
Í sumar var greint frá því að eignarhlutur Björgólfs í Allergan nemi í kringum eitt prósent.
Ef verður af umsamdri yfirtöku Pfizer á frumlyfjahluta Allergan má áætla að hlutur Björgólfs Thors Björgólfssonar í lyfjasamsteypunni nemi 210 milljörðum króna.

Á mánudaginn var greint frá því að samið hefði verið um kaup á frumlyfjahluta Allergan fyrir 160 milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði 21 þúsund milljarða íslenskra króna.

Breska blaðið Telegraph segir að hluthafar í Allergan muni fá 11,3 hluti í nýja fyrirtækinu fyrir hvern hlut sinn. Samkvæmt því eignast hluthafar í Allergan 44 prósent í nýju samsteypunni. Í sumar kom fram að hlutur Björgólfs Thors í Allergan væri í kringum eitt prósent. Því má áætla að hlutur hans eftir samruna nemi 0,44 prósentum.

Sé reiknað með að heildarverðmæti samsteypunnar nemi markaðsvirði Pfizer, 202 milljörðum Bandaríkjadala, og verðmæti samningsins, 160 milljörðum Bandaríkjadala, verður samsteypan samtals 362 milljarða Bandaríkjadala virði. Má þá áætla að 0,44 prósent eignarhlutur Björgólfs Thors nemi samtals 1,59 milljörðum Bandaríkjadala, eða jafnvirði 210 milljörðum íslenskra króna.

Björgólfur Thor á hlutinn í Allergan í gegnum hlut sem hann hélt í Actavis þegar hann samdi um uppgjör við kröfuhafa sína.


Tengdar fréttir

Stærsti samruni lyfjafyrirtækja í sögunni

Yfirtakan er ein af fjölmörgum þar sem bandarísk fyrirtæki kaupa evrópsk fyrirtæki og flytja höfuðstöðvar sínar til að forðast háa fyrirtækjaskatta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×