Viðskipti innlent

Helmingur Íslendinga vill nota aðra mynt

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Helmingur Íslendinga vill taka upp annan gjaldmiðil en íslensku krónuna, án tillits til inngöngu í Evrópusambandið. Þetta sýna niðurstöður skoðanakönnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Þegar einungis eru skoðuð svör þeirra sem afstöðu taka sést að 53 prósent vilja aðra mynt en 47 prósent vilja ekki aðra mynt. Séu svör allra skoðuð sést að 42 prósent vilja taka upp aðra mynt, 38 prósent vilja ekki taka upp aðra mynt, 17 prósent er óákveðin og þrjú prósent svara ekki.

Ásgeir Jónsson, dósent við hagfræðideild Háskóla Íslands, segir niðurstöðurnar ekki koma sér sérstaklega á óvart. „Landsmenn hafa skipst nokkuð í tvo hópa í viðhorfi sínu til krónunnar. Vinsældir íslensku krónunnar fylgja dálítið hagsveiflunni og dala við vaxtahækkanir Seðlabankans eða gengisfall. Ég man eftir mjög ákveðinni evruumræðu upp úr 2000, 2006 og síðan eftir 2008. Fólk væntanlega horfir nú til vaxtamunarins við Evrópu þannig að þetta kemur ekki á óvart,“ segir Ásgeir.

Íslenska myntsvæðið er eitt það minnsta sem þekkist. Ásgeir segir því eðlilegt að umræða um framtíðargjaldmiðil komi reglulega upp. „Krónan hefur verið í höftum meira og minna síðan hún varð sjálfstæð frá fullveldisárinu 1918. Tímabilið frá 2001 til 2008 er svolítið einstakt í sögu þjóðarinnar, þar sem krónan er fljótandi á frjálsum gjaldeyrismarkaði. Og mér sýnist að fáir vilji beinlínis endurtaka þá tilraun,“ segir Ásgeir. Eina leiðin til að stjórna verðlagi á Íslandi sé að hafa taumhald á genginu og það sé í raun aðeins hægt með einhvers konar höftum.

Ásgeir segir raunhæfasta möguleikann til að taka upp aðra mynt sé í myntbandalagi við evruríkin. „Þá myndi Seðlabankinn okkar breytast í útibú frá Evrópska bankanum. Við myndum þá missa vaxtaákvörðunarvaldið en myndum fá rétt til þess að prenta evrur í veðlánaviðskipum sem myndi gefa okkur meira vald yfir fjármálastöðugleika og greiðslujöfnuði landsins,“ segir Ásgeir. „Þar sem krónan er örmynt er til að mynda erfitt fyrir Seðlabankann að þjóna sem lánveitandi til þrautavara og útvega bönkunum lausafé með peningaprentun án þess að skapa gjaldeyriskreppu.“

Ásgeir segir að upptaka nýrrar myntar fæli í sér mikla kerfisbreytingu. „Það felur í sér að það þurfi að taka upp annað vinnulag í ansi mörgu, eins og til dæmis í kjarasamningum þar sem það er ekki hægt að „leiðrétta“ of dýra kjarasamninga með því að lækka gengið. Einnig yrði að huga mjög grannt að því að stjórna eftirspurn með öðrum leiðum en hækkun vaxta. Þannig að þetta myndi þýða algjörlega breyttar hegðunarforsendur,“ segir Ásgeir.

Stjórnvöld hafa áform um lausn á vanda slitabúanna og aflands­króna en minna er rætt um það hvað tekur við því ferli. „Nýtt haftalosunarplan hefur ekki enn komið fram og ekki heldur vegakort yfir það hvernig íslenska myntkerfið verður rekið til framtíðar. Það liggur fyrir að við munum notast við krónuna um eitthvert árabil, sama hvað mönnum finnst um evruna. Og það vantar miklu meiri og jákvæðari umræðu um það hvernig við getum rekið íslenska myntkerfið betur,“ segir Ásgeir. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×