Viðskipti innlent

Skeljungur stefnir á skráningu síðla árs 2016

Sæunn Gísladóttir skrifar
Tilkynnt var fyrr á þessu ári að Skeljungur stefndi á markað árið 2016.
Tilkynnt var fyrr á þessu ári að Skeljungur stefndi á markað árið 2016. Vísir/GVA
Skeljungur gæti verið næsta fyrirtæki sem skráð verður á Aðalmarkað Kauphallarinnar. Valgeir Baldursson, forstjóri Skeljungs, segir í samtali við Markaðinn að stefnt sé að skráningu síðla árs 2016.

Greint var frá því í apríl að Skeljungur hefði ráðið Íslandsbanka og Arion banka til að vinna að undirbúningi að skráningu félagsins í Kauphöllina. Þá sagði Valgeir að stefnt væri að því að hlutafjárútboð gæti farið fram á fyrstu mánuðum ársins 2016. Svo virðist sem skráningin muni þó tefjast. „Það er áfram sama stefnan að skrá félagið, væntanlega á árinu 2016,“ segir Valgeir. Aðspurður segir hann að skráningin verði ekki í ársbyrjun. „Stefnan er sett á skráningu síðla árs 2016,“ segir hann.

Skeljungur er að stórum hluta í eigu lífeyrissjóða og Arion banka. Hluthafar Skeljungs eru SF IV slhf. og SF IV GP hf. SF IV á yfir 99% hlut í Skeljungi. Stærstu hluthafar SF IV eru SÍA II slhf. sem á 24,22% hlut, Arion banki sem á 12,92%, og Gildi lífeyrissjóður sem á 9,3%. Meðal stærstu hluthafa SÍA II eru Gildi lífeyrissjóður, sem á 15,9%, Stapi lífeyrissjóður sem á 10% og Arion banki sem á 7,5%.

Tekjur Skeljungs árið 2014 námu 42,8 milljörðum króna og nam hagnaður ársins 570,8 milljónum króna. Eignir samstæðunnar námu 21,4 milljörðum króna, eigið fé rúmum 8 milljörðum og eiginfjárhlutfall var 37,8%.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×