Viðskipti innlent

Umboðsmaður gagnrýnir Seðlabanka

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. vísir/vilhelm
Umboðsmaður Alþingis telur þörf á að Seðlabankinn, fjármálaráðherra og Alþingi taki afstöðu til þess hvort gera eigi breytingar á fyrirkomulagi athugana og rannsókna vegna ætlaðra brota gegn gildandi reglum um gjaldeyrismál.

Þetta kemur fram í bréfi sem umboðsmaður sendi Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra, Má Guðmundssyni seðlabankastjóra og Þórunni Guðmundsdóttur, formanni bankaráðs. Gjaldeyriseftirlit Seðlabankans hefur eftirlit með því hvort reglum sé fylgt.

„Ég hef þá fyrst og fremst í huga að tekin sé afstaða til þess hvort það fyrirkomulag að fela Seðlabankanum að fara með þessi verkefni samhliða almennri stjórnsýslu við framkvæmd gjaldeyrishaftanna í þeim mæli sem raunin er í dag fullnægi nægjanlega þeim kröfum sem talið er rétt að viðhafa í skipulagi stjórnsýslu á aðgreiningu verkefna sem meðal annars tekur mið af því að tryggja að fyrir hendi sé nægjanleg þekking, reynsla og þjálfun í úrlausn viðkomandi verkefna. Slíkri aðgreiningu verkefna er líka ætlað að treysta grundvöll málefnalegrar stjórnsýslu,“ segir Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, í bréfinu.

Nýlega var greint frá því að sérstakur saksóknari hefði fellt niður rannsókn á meintu gjaldeyrisbrotamáli Seðlabanka Íslands eftir þriggja ára málsmeðferð. Átaldi Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, seðlabankastjóra fyrir meðferðina á því máli.

Umboðsmaður Alþingis segir að Seðlabankinn þurfi að huga betur að því við undirbúning og ákvarðanatöku um athuganir og rannsóknir, og hugsanlega kæru til að lögreglu, að sá lagagrundvöllur sem slíkar ákvarðanatökur byggi á séu fullnægjandi. Eins og sjá megi af tilurð og breytingum á lagaákvæðum og reglum um gjaldeyrismál er ljóst að Seðlabanki Íslands hefur haft verulega aðkomu að undirbúningi þeirra. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×