Viðskipti innlent

Einkaaðilar komi að fjármögnun sæstrengs

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gísli Hauksson, forstjóri GAMMA, vill sjá fleiri framkvæmdir fjármagnaðar með þátttöku einkaaðila. Fréttablaðið/GVA
Gísli Hauksson, forstjóri GAMMA, vill sjá fleiri framkvæmdir fjármagnaðar með þátttöku einkaaðila. Fréttablaðið/GVA
Á Íslandi eru nokkur stór verkefni sem vel myndu falla að kostum einkafjármögnunar, að mati Gísla Haukssonar, framkvæmdastjóra verðbréfafyrirtækisins GAMMA. Hann segir líklegt að erlendir aðilar, til dæmis erlendir sjóðir sem eru sérhæfðir í fjárfestingum í innviðum, hafi áhuga á að fjárfesta á Íslandi. Bæði með eigið fé og lánsfé.

Gísli segir að eitt slíkt hentugt verkefni væri sæstrengur, sem rætt er um að leggja til Bretlands. „Og það er mjög líklegt að það yrðu stórir alþjóðlegir innviðafjárfestar, og hugsanlega íslenskir líka, sem kæmu að því að leggja þann streng, hanna, byggja og mögulega reka, segir Gísli.

Hann nefnir fleiri verkefni, svo sem stækkun á Leifsstöð og uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli sem til stendur að ráðast í. Einnig Sundabraut. „Það er verkefni sem hefur verið metið í gegnum tíðina þjóðhagslega arðbært og skorar gríðarlega hátt á öllum kostnaðar- og ábatagreiningum sem gerðar eru á forgangsröðun samgöngumannvirkja en hefur ekki verið talin ástæða að ráðast í,“ segir Gísli. Þá megi jafnframt nefna stækkun Hvalfjarðarganga.

Gísli hélt ræðu um einkafjármögnun innviða á ráðstefnu hjá Sjávarklasanum á dögunum. „Í þessari ræðu tala ég ekki eingöngu frá samgöngusviðinu, heldur almennt um innviði yfirhöfuð. Það er verið að tala um veitufyrirtæki og félagslega innviði. Við erum aftar á merinni heldur en fjölmörg önnur ríki sem við berum okkur að jafnaði saman við þegar kemur að slíkum verkefnum. Ég held að við ættum að læra af reynslu annarra þjóða sem víðast hvar hefur verið góð,“ segir Gísli. En með félagslegum innviðum á hann við skóla og aðrar menntastofnanir, mannvirki og þjónustu tengda heilbrigðisgeiranum, mannvirki og þjónustu tengda dómstólum, fangelsi og íþróttaleikvanga.

Gísli bendir á að þörfin fyrir fjárfestingu í innviðum á Íslandi sé gríðarleg, enda hafi úthlutun framkvæmdafjár til samgöngumála dregist saman um 70% frá hruni.

GAMMA metur að uppsöfnuð fjárfestingarþörf í hefðbundnum og félagslegum innviðum sé um 250 milljarðar króna, og að fjárfestingarþörf i innviðum næstu 7-10 árin verði að minnsta kosti 500 milljarðar.

Gísli veltir fyrir sér hvort uppbygging verkefna á borð við hátæknisjúkrahús og Sundabraut hefði ekki gengið hraðar fyrir sig ef einkaaðilar hefðu komið að þeim.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.