Viðskipti erlent

Grikkir selja fjórtán flugvelli til þýsks félags

Atli Ísleifsson skrifar
Flugvöllur á Krít.
Flugvöllur á Krít. Vísir/AFP
Grikklandsstjórn hefur samþykkt sölu á fjórtán flugvöllum til þýska félagsins Fraport AG sem rekur meðal annars alþjóðaflugvöllinn í Frankfurt.

Salan er liður í umdeildum einkavæðingar- og aðhaldsaðgerðum sem gríska ríkið hefur heitið að ráðast í í skiptum fyrir 86 milljarða evra lán frá lánardrottnum sínum.

Samningurinn við Fraport AG og grískan samstarfsaðila félagsins, Copelouzos Group, er upp á 1,23 milljarða evra eða um 180 milljarða króna og gilda rekstrarleyfin til fjörutíu ára.

Í frétt Wall Street Journal kemur fram að flugvellirnir sem um ræðir séu í Þessaloníku, Aktio, Chania (Krít), Kavala, Kefaloníu, Kerkyra (Korfú), Zakynþos, Ródos, Kos, Mýsínos, Mýtilene, Samos, Santorini og Skiaþos. Um 19 milljónir farþega fóru samtals um vellina á árinu 2013.

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, hafði áður heitið því að selja ekki hafnir, flugvelli og ýmislegt fleira í skiptum fyrir frekari lán.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×