Viðskipti innlent

Framkvæmdastjóri IKEA: „Hagnaðurinn var of mikill“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
„Þetta er ekkert gabb og ef þetta væri gabb þá er það lengsta gabb Íslandssögunnar,“ segir Þórarinn Ævarsson framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi. IKEA tilkynnti í dag að verslunin hyggðist lækka verð á vörum sínum um 2,8%.

Ástæðurnar fyrir lækkuninni segir fyrirtækið vera sterkari gjaldmiðill gagnvart evru, hagstæða kjarasamninga og aukna veltu tengda ferðamönnum. Viðbrögð stjórnenda annara fyrirtækja hafa verið mismunandi. Sumir segja aðgerðina ranga, aðrir fagna henni og enn aðrir segja þetta auglýsingabrellu.

„Við lækkuðum verðin í fyrra líka, þá um fimm prósent og árið þar áður stóðu þau í stað. Ef lögmál markaðarins ráða einhverju hérna þá verða aðrir í sama geira að lækka verðin sín til að vera samkeppnishæf.“

Þórarinn var í viðtali hjá Gunnari Atla Gunnarssyni í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Þar nefnir hann meðal annars að hagnaður IKEA hafi verið of mikill að undanförnu. Lækkunin á verðunum skilar sér í því að IKEA verður af 200 milljónum króna.

„Svona verður hagnaðurinn réttur. Eins og reksturinn var fyrir þessa ákvörðun þá vorum við að hagnast of mikið og þegar staðan er þannig erum við að gefa samkeppninni færi á að komast undir okkur í verði,“ segir Þórarinn.

Viðtal Gunnars við Þórarinn má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir

Seðlabankastjóri trúir ekki á kraftaverk

Þrátt fyrir mjög hagstæð skilyrði á mörgum sviðum efnahagslífsins telur seðlabankastjóri að kraftaverk þurfi til að koma í veg fyrir hækkun verðbólgu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×