Frá árinu 1958 hefur fjöldi farþega sem fer um flugstöðina 90 faldast, farið úr 44 þúsundum á ári í rétt tæpar fjórar milljónir árið 2014. Þá er ráð fyrir að farþegar flugstöðvarinnar verði fjórar og hálf milljón í ár og munu 20 flugfélög fljúga um völlinn í sumar.
Farþegaaukning hefur verið mest síðastliðin sex ár þar sem rúmlega hundrað prósenta aukning hefur orðið á fjölda farþega síðan árið 2009. Þessi hraða aukning hefur átt sér stað án sérstakra breytinga á flugstöðinni eða vellinum. Vegna þessarar miklu farþegaaukningar var ráðist í fyrrnefndar breytingar.
Nú þegar eru hafnar stækkunarframkvæmdir bæði á komusal og suðurhluta flugstöðvarinnar, samtals um 6.000 fermetrar. Ný þróunaráætlun til ársins 2040 er í mótun og mun hún taka á öllu skipulagssvæði flugvallarins og nærumhverfi hans. Áætlunin gerir m.a. ráð fyrir að á þessum 25 árum muni stærð flugstöðvarinnar tvöföldast og ný norður-suður flugbraut lögð vestan við flugvöllinn.
Einnig hefur verið unnið að miklum breytingum á verslunar- og veitingasvæði flugstöðvarinnar sem ljúka mun formlega í dag. Svæðið hefur verið stækkað og veitingastöðum hefur verið fjölgað þannig að flugstöðin geti þjónað þeim aukna fjölda farþega sem búist er við á næstu árum. Með breytingunum mun úrval og framboð vöru og veitinga í flugstöðinni aukast sem skilar flugvellinum auknum leigutekjum.
